Ánægja með störf Agnesar minnkar

10.02.2017 - 12:22
Mynd með færslu
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands. Mynd: RÚV
Ánægja með störf Agnesar M. Sigurðardóttur biskups heldur áfram að minnka samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup. 29% Íslendinga eru ánægð með störf hennar en hlutfallið var 45% þegar hún var nýtekin við. Enn eru þó fleiri ánægðir en óánægðir með störf hennar.

Gallup spurði á haustmánuðum um afstöðu fólks til ýmissa mála tengdum þjóðkirkjunni. Meðal annars kemur fram að traust til hennar er svipað og fyrir ári. 39% þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til hennar en 32% lítið traust. Aðrir bera hvorki mikið né lítið traust til hennar. Eldra fólk og íbúar á landsbyggðinni treysta kirkjunni betur en aðrir.

Þá hafa einnig orðið litlar breytingar á afstöðu til þess hvort skilja eigi að ríki og kirkju. 55% eru hlynnt því, um 25% andvíg en 18% hvorki hlynnt né andvíg. Yngra fólk, íbúar höfuðborgarsvæðisins og fók sem lokið hafði háskólaprófi var frekar hlynntara aðskilnaði.

Breytingar hafa hins vegar orðið á afstöðu til starfa Agnesar M. Sigurðardóttur biskups. Skömmu eftir að hún tók við embætti árið 2012 voru 45% ánægð með störf hennar. Þessi ánægja hefur farið minnkandi síðan þá. Í fyrra voru 37% þeirra sem tóku afstöðu ánægð með störf hennar, en nú er hlutfallið komið niður í 29%. Það eru þó fleiri ánægðir en óánægðir með störf Agnesar - 21% aðspurðra var óánægt með hennar störf. Nærri helmingur var hins vegar hvorki ánægður né óánægður. Konur voru ánægðari með störf Agnesar en karlar.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi