Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Amor 900-9902

01.02.2014 - 12:01
Mynd með færslu
 Mynd:

Ásdís María Viðarsdóttir – flytjandi

Ásdís María er tvítug og býr í Vesturbænum, en hún ólst upp í Breiðholti. Hún vinnur í versluninni Spúútnik og sem barþjónn á veitingahúsinu Argentínu.

Ásdís María söng á unga aldri á sviði á Síldarævintýrinu á Siglufirði eitthvert dúndur lag úr Dýrunum í Hálsaskógi og leyfir sér að álykta að það hafi slegið í gegn hjá áhorfendum. Á svipuðum tíma segir hún hafa myndast hjá sér smá æskuskot í Þresti Leó Gunnarssyni leikara, sem hún hefur enn ekki náð að hrista fullkomlega af sér. Upphafsstefið í Law & Order finnst Ásdísi vera besta lag allra tíma, en það vill svo skemmtilega til að Law & Order: Special Victims Unit er einmitt uppáhaldssjónvarpsþátturinn hennar.

Ásdís segist vera dálítið hvatvís, en líka hávær og glöð manneskja. Vonandi kemst að minnsta kosti það tvennt síðarnefnda til skila þegar hún flytur lagið Amor. Ásdísi finnst lagið hlaðið trega og frekar dramatískt, jafnvel örvæntingarfullt.

Haukur Johnson – höfundur lags og texta

Haukur Johnson er 31 árs, fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann er með BA-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands en lærði einnig tónlistarútsetningar við SAE Institute í Svíþjóð. Hann er í sambúð með Casper Wallström, þeir búa í Stokkhólmi og eiga saman eina pottaplöntu.

Lagið fjallar um einhvern sem er fullur eftirsjár og nær ekki að halda áfram að lifa lífi sínu eins og hann hefði viljað eftir mikla ástarsorg, eitthvað sem flestir kannast sennilega við. Um flytjandann Ásdísi segir Haukur að hún sé nett klikkuð en jafnframt ákaflega hæfileikarík og skemmtileg. Þau hafa ekki þekkst lengi, því Haukur sá hana fyrst í sjónvarpinu þegar hún vann Söngkeppni framhaldsskólanna í fyrra og datt hún strax í hug þegar lagið var farið að taka á sig mynd. Honum datt ekki einu sinni nein söngkona í hug til vara því Ásdís smellpassaði við það sem hann vildi ná fram í atriðinu. Því nýtti hann sér tæknina og sendi henni Facebook skilaboð sem urðu upphafið að þessu skemmtilega samstarfi.

Þegar Haukur er spurður hvernig hans nánustu myndu lýsa honum segir hann að orðið taugaveiklaður kæmi líklega fyrir einhvers staðar, en einnig skemmtilegur og snjall, og flytjandinn hún Ásdís virðist nokkuð sammála því. Hún bætir því þó einnig við að hann sé mikið Eurovision-nörd.

 

Amor

Draumur sem hvarf
úr hendi rann

Fann sér stað

beið þín þar
Kemst ekki fram á við
vil ekki hata þig

Að finna til
allt sem ég vil

Ég hrópa á þig Amor-Amor-Amor
Hrópa Amor-Amor-Amor

Hrópa Amor-Amor-Amor
Hrópa Amor-Amor-Amor

Trúði engu sem var satt

Öryggi sem reyndist falskt

En ég er tilbúin að gera allt

til þess að komast aftur, aftur að

Ég hrópa á þig Amor-Amor-Amor
Hrópa Amor-Amor-Amor
Hrópa Amor-Amor-Amor
Amor-Amor-Amor

Hrópa Amor-Amor-Amor

Hrópa Amor-Amor-Amor
Hrópa Amor-Amor-Amor
Hrópa Amor-Amor-Amor
Hrópa Amor-Amor-Amor