Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áminning til heimsbyggðarinnar allrar

28.04.2019 - 12:07
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Bráðnun Snæfellsjökuls er áminning til heimsbyggðarinnar allrar, um mikilvægi þess að takast á við stærstu áskorun 21. aldarinnar. Þetta segir umhverfisráðherra. Mikilvægt sé að Íslendingar geri það sem hægt sé til þess að sporna við loftslagsbreytingum.

Snæfellsjökull hefur rýrnað mikið undanfarna öld. Árið 1910 var jökullinn 22 ferkílómetrar, en nú er flatarmál hans orðið minna en 10 ferkílómetrar. Á annan í páskum fóru vísindamenn á jökulinn til þess að meta stöðuna. Þeir spá því að jökullinn verði að mestu horfinn eftir 30 ár, verði ekki viðsnúningur í hlýnun jarðar. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir að þetta séu dapurleg tíðindi.

„Sem einstaklingur sem ólst upp við að hafa Snæfellsjökul í bakgarðinum, þá eru þetta náttúrulega alls ekki góð tíðindi fyrir okkur Íslendinga. Þetta er birtingarmynd loftslagsbreytinga og það má segja að þetta minni okkur á við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur, ekki bara Íslendingar heldur heimsbyggðin öll, í því að takast á við þessa stóru áskorun sem er sennilega stærsta áskorun 21. aldarinnar að mínu mati.“

Hvað getum við gert?

„Það er fjölmargt sem við getum gert og það er fjölmargt sem verið er að gera. Hér á Íslandi erum við búin að setja fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þar sem við erum í grunninn að breyta orkukerfi, við erum búin að breyta því þegar kemur að húshitun og rafmagni en nú eru það vegasamgöngur. Síðan þarf að ráðast í fiskiskipin og landbúnaðinn, það er að segja að fara úr mengandi jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa. En þar sem við vitum að það mun ekki duga til, því það er mikið umframmagn af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftinu, þá þarf að koma til að nýta skógrækt og landgræðslu sem binda kolefni í jarðvegi og gróðri og í votlendi. Og aðrar aðferðir líka sem eru meira tæknilegs eðlis. Það má nefna verkefni eins og það sem er uppi á Hellisheiði, Carbfix verkefnið þar sem koltvísýringur er hreinlega tekinn beint úr jarðvarmavirkjun og honum deilt niður í jarðlög.“

Guðmundir Ingi segir að tíðindin af Snæfellsjökli hafi ekki komið sér mikið á óvart. Hann hafi hins vegar áhyggjur af stöðu mála.

„Auðvitað hefur maður áhyggjur af stöðu jöklanna á Íslandi, það er alveg ljóst, og loftslagsmálunum í heild sinni. En það þýðir ekkert að festa sig í því, það verður bara að bretta upp ermarnar og gera það sem gera þarf.“