Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Alvörugefinn og draumkenndur Svanur

Mynd:  / Svanurinn

Alvörugefinn og draumkenndur Svanur

09.01.2018 - 09:45

Höfundar

Ný kvikmynd Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, Svanurinn, var frumsýnd hér á landi á dögunum. Myndin hefur á síðustu mánuðum farið sannkallaða sigurför um heiminn og unnið til virtra alþjóðlegra verðlauna. Gunnar Theódór Eggertsson kvikmyndagagnrýnandi segir myndina djúpa og úthugsaða með mörg lög af efnivið.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Svanurinn er ný íslensk kvikmynd, fyrsta mynd leikstjórans Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, sem jafnframt skrifar handritið upp úr samnefndri skáldsögu Guðbergs Bergssonar. Svanurinn er þroskasaga Sólar, níu ára stúlku sem er send í sveit yfir sumar, til frændfólks sem hún þekkir ekki, og við fylgjum sjónarhorni hennar og upplifum með henni ákveðnar breytingar og flækjur sem verða til í sambandi við aðra fjölskyldumeðlimi og ekki síst vinnumanninn á bænum.

Mikil nánd

Svanurinn einkennist af mikilli nánd við aðalpersónuna og sjónarhorn hennar. Myndin verður nánast áþreifanleg á köflum, allt frá því að öldugangurinn í upphafi myndar skolar okkur upp á land og við færumst beint ofan í þangið í fjörunni, inn í skynveröld Sólar. Mér fannst ég nánast geta snert þangið, grasið, hárið, klæðin, dauða flugu, könguló sem skríður á milli fingra; þannig fangar myndin sjónarhorn stúlkunnar á einlægan og heillandi hátt svo varla er annað hægt en að hrífast með. Þetta gerist fyrst og fremst í gegnum myndatökuna, því vélin dvelur mikið við andlit stúlkunnar, sem er fyrir miðju nánast út alla myndina, en við ferðumst líka beint inn í sjónarhorn hennar, oft í stuttum og hröðum skotum, sem skapa fallega hrynjandi í gegnum klippinguna. Við horfum með augum hennar og upplifum þessa miklu nánd við umhverfið.

Sögur sem fylgjast með náttúrunni

Vinnumaðurinn á bænum, sem er jafnframt skúffuskáld, segir á einum stað að það sé "mikilvægt fyrir sögur að fylgjast vel með náttúrunni", og þessum orðum hlýðir Ása Helga, því myndin fylgist grannt með náttúrunni og umhverfinu - en þar með á ég ekki við að Svanurinn sé landslagsmynd, því fer fjarri, því hún verður aldrei að lundabíói til að selja til útlanda. Jú, við sjáum tignarleg fjöll og fallegan Svarfaðardalinn, en það er miklu frekar hið smágerða í kring sem vekur furðu og forvitni og ljær myndinni og náttúrunni ákveðinn líkamleika, sem helst enn fremur í hendur við þema myndarinnar varðandi þroska ungu stúlkunnar.

Tengsl draumóra, raunveruleika og ljóðrænu

En það er ekki bara myndatakan sem fangar sjónarhorn aðalpersónunnar, heldur líka tónninn í myndinni sjálfri, sem kallast á við Sól; alvörugefin og draumkennd, kannski dálítið fljúgandi og skrítin líka, og tengsl draumóra, raunveruleika og ljóðrænu eru í stanslausu flæði. Það er kannski ekki mikil gleði í myndinni, en hún verður þó aldrei yfirmáta þung, einmitt vegna þess hversu draumkennd hún er. Sól segir sögur af einhvers konar tvífara sínum, stúlku sem er föst í draumi, hverfur niður á hafsbotn eða leyfir grasinu að faðma sig, og tvífarann má einnig skynja sem táknrænan fyrir þroskasöguna og þá kviknandi kynvitund sem er svo sterkur undirtónn í myndinni og auðvitað afar vandmeðfarið efni í kvikmynd. Ása Helga nálgast þann hluta sögunnar á snjallan og óbeinan hátt, nýtir sér takmarkað sjónarhorn aðalpersónunnar og treystir áhorfendum til að taka við púslinu og fylla sjálfir í eyðurnar. Það er heilmikil dýpt í Svaninum og mörg lög af efnivið sem hægt er að kafa ofan í og pæla í, því Ása Helga hefur jafnframt mjög sterk tök á því að vinna með undirtóna og að vissu leyti undirvitund aðalpersónunnar. Myndin virkar úthugsuð og útpæld - enda liggur mikil vinna að baki handritinu og það sést, því sem áhorfandi skynjaði ég heilmikla persónusköpun í gegnum myndræna þætti og úr umhverfinu sjálfu.

Mynd: Svanurinn / Svanurinn

 

Gott jafnvægi myndmáls og texta

Enn og aftur endurspeglar Svanurinn þarna aðalpersónuna, Sól, sem segir líka sögur, er þó hrifnari af óútgefnum sögum heldur en "alvöru bókum", sögum sem hún á út af fyrir sig og segir aðallega kálfinum, vini sínum, frá, rétt eins og vinnumaðurinn sem skrifar að því er virðist fyrir sjálfan sig, eða ímyndaða framtíðareiginkonu. Saman eru þau í ákveðinni andstæðu við hitt fólkið á bænum, sem er fært í orð af dótturinni sem ásakar móður sína um að sjá heiminn einungis út frá notagildi hluta, en gleyma því ljóðræna og fagra. Sjálfur hef ég ekki lesið skáldsöguna sem myndin byggir á, en hún er ekki beinlínis talin liggja beint við kvikmyndun, því sagan er bæði huglæg og ljóðræn og Ása Helga hefur því tekið heilmikla áhættu að færa textann í myndrænt form. En það tekst vel til og áherslan er mestmegnis myndræn, frekar en textaleg. Það er jú eitthvað um lesinn ljóðrænan texta yfir myndefni og svoleiðis stílbrögð geta stundum virkað tilgerðarleg í kvikmyndum, en sjálfur upplifði ég það alls ekki hér, því Ásu virðist hafa tekist að ná einkar góðu jafnvægi hvað varðar myndmál og texta, rétt eins og hún gerir hvað varðar sjónarhorn Sólar og aðrar persónur myndarinnar. Hún leyfir sér einnig að vera dálítið sjálfsmeðvituð, vísar í Andrei Tarkovsky, einn meistara ljóðrænnar kvikmyndagerðar, með því að láta vinnumanninn fara með setningu frá honum, og leyfir einnig rödd rithöfundarins sjálfs, Guðbergs Bergssonar, bókstaflega að heyrast í útvarpinu á bænum, þótt ekki fari mikið fyrir því.

Augljós táknfræði slátrunarsenu

Það er mikið af dýrum í myndinni og sérstaklega ber að nefna samband stúlkunnar við kálf í sveitinni, en táknfræðin í kringum samband þeirra verður stundum aðeins of yfirgnæfandi og augljós, miðað við hvað annað er annars órætt. Þá er ég aðallega að hugsa um táknræna notkun á slátrunarsenu sem hluta af þroskasögunni, stef sem er algengt í uppvaxtarsögum - að fullorðnast er að læra að afneita öðrum dýrum, að læra að "kerlingin, þetta venst!", eins og bóndinn orðar það. En þrátt fyrir að það atriði hafi aðeins stuðað mig, því mér þótti það smætta kálfinn ofan í hreint tákn, miðað við hvað hann hafði annars mikla burði til að vera meiri persóna í myndinni, þá er Svanurinn svo marglaga að þarna, sem annars staðar, leyndust aðrar hliðar, sem upphefja hlutverk dýranna á bænum á áhugaverðan hátt. Þannig fáum við t.d. að sjá sorgarviðbrögð einnar kýrinnar, kálfsmóðurinnar, sem er síðan gert lítið úr og hlegið að við matarborðið, og í þeim senum má finna snjallar hliðstæður varðandi mæður og afkvæmi, mennsk og ómennsk, sem var einmitt leyft að vera dálítið undir rós og hæfilega óræð. Það eru fleiri dýr í myndinni og eitt þeirra stingur eilítið í stúf við hin, vegna þess að brellurnar í kringum það dýr eru einfaldlega ekki nógu góðar og það truflaði mig aðeins í einni lykilsenu, en er engu að síður smámunir miðað við hversu sterk myndin er sem heild.

Næmur leikstjóri

Leikararnir standa sig allir vel, en unga leikkonan Gríma Valsdóttir heldur myndinni uppi og er afskaplega fín í hlutverki aðalpersónunnar. Auðvitað er alltaf áhætta að gera mynd sem hverfist í kringum barn (og dýr) en blessunarlega gengur það upp. Söguefni myndarinnar er annars kunnuglegt, þroskasaga úr sveit, íslensk einangrun og náttúra, en rétt eins og með Hjartastein í fyrra er það framsetningin, kvikmyndrænn styrkleiki og næmni leikstjórans sem gerir myndina sérstaklega góða. Handritið ávarpar þetta á nokkuð sjálfsmeðvitaðan hátt, þegar dóttirin á bænum ávarpar eigin raunasögu og segir að það sem hún hati við þetta allt saman sé að "það er ekki neitt frumlegt við þetta". Jú, kannski má segja að það sé ekkert frumlegt við sam-mannlegar raunir og tilfinningar, en það þýðir ekki að það sé ekki neitt frumlegt við Svaninn. Túlkun á sjónarhorni ungu stúlkunnar, ljóðræn og draumkennd stílbrögð, og óbein og óræð, en samt markviss og örugg nálgun á erfiða hluta þroskasögunnar gera Svaninn að frumlegri og grípandi mynd. Hún er margræð og flókin, þótt hún virki einföld á yfirborðinu, og sögur kallast á, endurspeglast, og birtast brotakennt. Fyrst og fremst skiptir þó máli að Ása Helga mætir til leiks með frumraun sem ber merki um sterka rödd leikstjóra og afar skýra sýn á efniviðinn, og það er gleðiefni að bjóða hana velkomna. Svanurinn er góð byrjun á nýju bíóári og vekur enn fremur tilhlökkun gagnvart hverju því sem koma skal úr smiðju Ásu Helgu Hjörleifsdóttur í framtíðinni.

Eiríkur Guðmundsson ræddi við Gunnar Theodór Eggertsson í Lestinni á Rás 1 þann 8. janúar 2018. 

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Sjáðu fyrstu stikluna úr Svaninum

Kvikmyndir

Skilaði Svaninum

Kvikmyndir

Svanurinn fylgt leikstjóranum í sex ár