Alvöru leikhús

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Alvöru leikhús

31.05.2018 - 15:51

Höfundar

„Verkið gefur áhorfendum tíma til að hugsa, og horfa, og skoða. Verk sem er opið, eins og flest verkin hans Ragnars, eitthvað mjög banalt en á sama tíma hægt að tala um í sömu setningu og stríðið í Sýrlandi eða afstöðu Íslendinga til Ísrael.“ Starkaður Sigurðarson, myndlistarrýnir Víðsjár, sá Stríð í Þjóðleikhúsinu.

Starkaður Sigurðarson skrifar:

Það eru ekki margir listamenn á Íslandi sem myndu gera, eða gætu gert, risalistaverk á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu með Kjartani Sveinssyni og Hilmi Snæ og Sinfóníuhljómsveit Íslands, án þessa að kalla verkið leikrit, kalla verkið frekar Stríð, tala opinskátt í fjölmiðlum um Hauk Hilmarsson, aðild Íslands í NATÓ, framboð sitt fyrir Vinstri Græna, hlæja að öllu þessu á sama tíma og taka þessu öllu fullkomlega alvarlega. Það er aldrei erfitt að tala um listaverk Ragnars Kjartanssonar.

Ragnar er orðinn risalistamaður í útlandinu. Kallaður: „one of the most brilliant artists at work today“. Hann fær fimm stjörnur í stórum útgáfum. En hann er ekki sami listamaðurinn á Íslandi eins og í Vesturheimi ytra. Wikipedia síðan hans er margar blaðsíður á ensku, en ekki til á íslensku. Kannski af því að hér þekkja hann allir nú þegar. Listamaður sem lifir akkúrat í þeim heimi sem hann býr til fyrir sjálfan sig, sami heimur og hann potar alltaf holur í. Hvað gera þessi listaverk? Hvað gera þau hér á Íslandi þar sem þau eru allt öðruvísi, í allt öðru samhengi, þar sem allir virðast þekkja hann, foreldra hans, fortíð hans? Þar sem í verkunum hans er hann sjálfur alltaf til staðar. Ef ekki í nærmynd, þá ekki langt í burtu. Hvað vilja þessi verk segja okkur?

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ragnar Kjartansson.

Stríð, verk sem Ragnar vann með Kjartani Sveinssyni tónlistarmanni, var sýnt í síðustu viku í Þjóðleikhúsinu. Í klukkutíma er Hilmir Snær stórleikari að þjást, alveg að deyja, á sviðinu, þar sem leikmyndin setur hann á einhvern óræðan vígvöll, eftir baráttuna, hugsanlega einhvers staðar á átjándu öld, hugsanlega einhvers staðar í vestur eða austur Evrópu, umkringdur föllnum liðsmönnum. Þessi deyjandi hermaður má ekkert segja, bara þjást. Hann getur bara verið listaverk, ekki alvöru maður, saga, eða framvinda, sem er þó ógerningur líka. Það vita allir hvað er bak við tjöldin og búningana, hugsanlega meira um það heldur en það sem er á sviðinu. Hermaðurinn þarf hins vegar að leika mjög mikið, og leika sem ýktastan leik. Hann rankar við sér, finnur fyrir sárum sínum blæðandi, syrgir látinn vin sinn, réttir við fána hers síns, öskrar og stynur og deyr síðan með frumópi, svífandi belgjandi tónlist úr gryfjunni, og hvelli leikhússprengingar.

Maður fastur í klukkutíma í lokuðu, plat rými, búið til fyrir hann, til þess að aðrir geti horft á hann, sem samt reynir að teygja sig að raunveruleikanum, eða ekki. Það er auðvitað ekki hægt; það er ekki hægt að gera stríð, búa til stríð, á sviðinu. En í því samhengi er þetta mjög raunverulegt. Leikarinn, leikhúsið, sætin, þú komin þangað að horfa, þetta er lífið í raun. Og þetta fyrirbæri að endurgera stríð eða vígvöll eða einhvern absúrd hetjudraum á striga eða í marmara eða í framvindu er mjög raunverulegt fyrirbæri, algjör klisja, en endurtekið í mörg þúsund ár. Leikhúsið er ekki meira eða minna raunverulegt en önnur hús í borginni.

Það mætti segja að hér sé verið að reyna að nálgast eitthvað raunverulegt í gegnum eitthvað óraunverulegt. Það er óhjákvæmilegt að finna fyrir einhverjum tilfinningum á þessum klukkutíma. Það fellur ekki tár endilega, en kannski birtist samúð með stórleikaranum sem þarf að halda þessu á lofti, hlátur, margar spurningar, en það sem er mest að gerast, er að maður er að horfa á þetta verk í klukkutíma. Og af því að listamaðurinn gefur áhorfandanum ekki mikið til að lesa verkið, þetta er ekki leikrit, engin texti, engin baksaga, þetta er ekki íslenski fáninn þarna, eða ódæðismenn á Sturlungaöld, þá er það áhorfandinn sem býr til þetta verk. Maður situr og horfir, sér málað baktjaldið, litlu sólina síga bak við fjöllin, fjöll sem gætu verið Alpar en kannski líka Tröllaskagi eða eitthvað fyrir austan. Þessi tilfinning, „að þjást“, tekur mann stundum, þá á frekar abstrakt hátt, en hún varir ekki í 60 mínútur, kemur og fer frekar. Þá fer maður að sjá annað, kannski að Hilmir, eða hermaðurinn, eða hvað sem þessi maður er, er að fara nokkurn veginn frá vinstri til hægri á sviðinu, eins og maður les, þetta er þá einhver narratíva, eða hvað? Maður fer að vilja þennan deyjandi mann til hægri; þegar hann fer til vinstri þá gengur illa.

Mynd með færslu
 Mynd: Þjóðleikhúsið

Tónlistin sem leikarinn miðar sinn leik við, segir líka margt, reynir að segja of mikið, eins og Kjartan ætlaði henni. Ýkt falleg tónlist, stundum nær yfirgengilegur tilfinninga súpuhljómur. Statistarnir eru alvöru fólk, sem liggja dauðir og blóðugir í búningum. Ragnar er að sýna okkur leikhúsið sjálft á sama tíma og hann leiksetur það óendanlega, og óendanlega ógeðslegt, stríð, og plat stríð, sem hefur verið raunveruleikinn okkar frá upphafi. Verkið gefur áhorfendum tíma til að hugsa, og horfa, og skoða. Verk sem er opið, eins og flest verkin hans Ragnars, eitthvað mjög banalt en á sama tíma hægt að tala um í sömu setningu og stríðið í Sýrlandi eða afstöðu Íslendinga til Ísrael.

Og þegar maður skoðar þetta verk, úr rauða fína salnum, smá að hlægja, smá að hugsa um yfir hverju maður væri að tárast ef maður færi að tárast, þá sér maður á hóli fremst á sviðinu, afhoggið höfuð. Augun lokuð og blæðir mikið úr því sári sem er þar sem líkaminn ætti að tengjast við það. Fyrst er þetta bara höfuð, á hvorri hlið það barðist er ekki ljóst, hermaður sem týndi lífi á afar óheppilegan hátt. En eftir hálftíma, meira, að sita og horfa, þá fer þetta höfuð, frá 14. bekk, að líkjast höfðinu á Ragnari sjálfum. Eitthvað við hárið og svipinn, hvorki alvarlegur né glettinn. Því meira sem maður horfir verður þetta höfuð, hlutur sem er sennilega búinn til í móti ekki holdi, meira og meira Ragnar, höfundur verksins.

Þá hugsar maður lengra, hversu mikið snúast verkin hans um hann sjálfan? Er þetta verk, hugmynd sem gæti vel byrjað sem grín yfir rauðvínsglasi, úthugsaður útreikningur eða eitthvað sem Ragnar er knúinn til að gera, eitthvað sem flýgur á innsæi, eðli, sögu listamannsins? Ragnar tekur þessar ákvarðanir, að drepa sjálfan sig, í plati, að hafa sitt eigið höfuð á sviðinu á meðan hann biður Hilmi Snæ um að stíga aldrei úr þessu hlutverki og þessum gríðarlega harmi. Eða að biðja móður sína að hrækja á sig, eins og í öðru verki, alltaf á fimm ára fresti, að taka það upp og sýna öðru fólki það. Að semja lag og mikið vídeóverk upp úr texta sem fyrrverandi kona hans skrifaði. Að láta hljómsveit spila sama lagið sitt um sorgina miklu í sex klukkutíma.

Er þetta hans eigin sorg og þjáning, hans eigin uppgjör við stríð eða við móður sína, eða einhverra annara manna? Verk sem reyna, vilja ekkert meira, hafa gríðarlega þörf á að tjá einhverja tilfinningu, en virðast bara geta það í gegnum þessar óraunverulegar, plat, leiknar, leiðir. Eru þessi verk, þar sem tilfinning eða eitt andartak er oft endurtekið í marga klukkutíma, marga daga, í gegnum mörg ár, föst inni í einhverju sem gæti líka verið kallað hringrás? Eru tilfinningar listamannsins fastar inni í þessum óraunverulega, búna til, heimi listarinnar, heimi leikhússins, leikarans, heimi uppeldis í kirkju og baksviðs, hálfpartinn á sviði, hálfpartinn í raunveruleikanum? Er þetta eina leiðin sem þessi listaverk hafa til að nálgast eitthvað sem heitir „raunveruleg“ tilfinning í gegnum þessar svo kallaðar „óraunverulegar“, ófullkomnu, sviðsetningar? Í gegnum eitthvað fyrirbæri sem getur logið betur en það getur sagt sannleik? Þá er spurningin hvort Ragnar sé fastur, líka spurningin hvort við séum föst. Eru þessar endurtekningar og endurtekningar það sama og hvernig samfélagið endurtekur og endurtekur og býr til einhverja merkingu kannski úr engu, kannski úr einhverju miklu, stríði, dauðanum, lífinu? Er plat, leikurinn, hið óraunverulega, það eina sem við höfum? Alvöru leikhús þar sem við hringsólumst í kringum alla okkar afhöggnu líkamsparta? Af því við hliðina á alvöru fjöllum erum við eins hlægileg og tragísk og óraunveruleg og listaverk.