Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Álver og olía verða utan mengunarkvóta

09.12.2012 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Samkvæmt nýrri framlengingu Kyoto-bókunnarinnar ætlar Ísland að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 30 prósent til ársins 2020. Helmingi þess á að ná fram með uppgræðslu og skógrækt. Álver og járnblendi er hins vegar ekki inn í þessum tölum en þar er reiknað með mikilli aukningu.

36 Evrópuríki auk Ástralíu taka á sig skuldbindingar samkvæmt nýja framlengda Kyoto-samkomulaginu sem nú mun gilda til 2020. Ísland er í þeim hópi. Þetta var ákveðið á loftslagsráðstefnu í Katar sem er niðurstaða sjö ára samningaferils. Nokkur ríki falla úr skaftinu, þeirra á meðal eru Rússland, Japan og Kanada. Bandaríkin eru ekki með nú, frekar en áður og ekki heldur Kína, sem nú er það ríki í veröldinni sem mengar loftið mest allra. Að óbreyttu hefði bókunin fallið úr gildi í árslok en ekki hefur tekist að ná samningum um nýja áætlun til að takast á við losun gróðurhúsalofttegunda. Nýja samkomulagið tekur til um 15 prósenta allrar losunnar gróðurhúsalofttegunda í heiminum.

Ísland er í hópi 28 ríkja sem taka á sig sameiginlegar skuldbindingar. Þetta eru Króatía, og ESB og EFTA ríki sem eru aðilar að ETS - Evrópusamningi um loftslagsmál. Ísland varð aðili árið 2009. Þetta þýðir í raun að frá áramótum munu stóriðjufyrirtæki geta verslað með mengunarkvóta og álver og aðrar stórar stóriðjuverksmiðjur hér falla þá í raun ekki undir mengunarkvóta Íslands.

Að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu ætlar Ísland að minnka nettólosun sína - eins og það er orðað - um 30 prósent. Nettólosun er semsagt losun að frádreginni bindingu. Venjuleg losun gróðurhúsalofttegunda, samkvæmt aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum frá 2010, frá samgöngum, sjávarútvegi, orkuframleiðslu, landbúnaði, sorpi og fleiru á að dragast saman um 16 prósent til 2020 - frá árinu 2005 að telja. Sé hins vegar binding gróðurhúsalofttegunda tekin með í reikningin reiknast minnkunin 30 prósent nettó. Þessi binding felst til að mynda í uppgræðslu, skógrækt og endurheimtu votlendis.

Hugsanleg áhrif olíuleitar á drekasvæðinu eru ekki tekin þarna inni í og utan við þetta er líka öll losun frá stóriðju, flugi og að hluta til fiskvinnslu. Reiknað með því að losun frá stóriðju á Íslandi áli og járnblendi frá 2005 til 2020 muni aukast verulega  en á móti þeirri losun verður hins vegar hægt að kaupa mengunarkvóta. Samkvæmt fyrrgreindri aðgerðaáætlun er reiknað með því að losun stóriðju á gróðurhúsalofttegundum muni aukast á þessu tímabili - um 115 til 261 prósent.