Alvarlegt ef ofveiði heldur áfram

02.10.2017 - 15:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríki hafa verið með óraunhæfar kröfur um kvóta markríls, kolmunna og norsk-íslenskrar síldar úr Norðaustur-Atlantshafi og stefnir í óefni ef ofveiði heldur áfram. Þetta segir formaður samninganefndar Íslands um heildarafla þessara stofna.

Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur lagt til að heildarveiði makríls verði minnkuð um 35 prósent á næsta ári og norsk-íslensku vorgotssíldarinnar um 15 prósent. Ráðlögð veiði á kolmunna er svipuð og á þessu ári.

Sigurgeir Þorgeirsson er ráðgjafi í atvinnuvegaráðuneyti og formaður íslensku samninganefndarinnar. Samninganefndir Noregs, Rússlands, Færeyja, Grænlands, ESB og Íslands funda í London í þessum mánuði og kveðst hann ekki of bjartsýnn á að samkomulag náist en vonar þó það besta.

Strandríkin hafi verið með kröfur um umtalsvert meiri kvóta en raunhæft sé. „Vissulega munu menn reyna að ná þessu núna því að þetta stefnir í grafalvarlegt ástand og getur ekki endað með öðru, ef að þessi ofveiði heldur áfram, en að illa fari. Þannig að menn verða að leggja sig fram,“ segir Sigurgeir um samningaviðræðurnar sem framundan eru.

Ekki hefur verið í gildi samningur um makríl síðan árið 2008, og ekki um kolmunna og síld síðan 2013 og 2014. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi