Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Alvarlegt ef hægt er að hundsa fundarboð

12.12.2018 - 10:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, telur það vera alvarlegt ef að kjörnir fulltrúar eða embættismenn komist upp með að hundsa fundarboð fastanefnda Alþingis. Nefndirnar hafi skýra eftirlitsskyldu með stjórnvöldum.

„Það er eitt að eiga sjálfur erfitt með að sinna sínu starfi, en annað þegar komið er í veg fyrir störf heilla nefnda,“ segir Helga Vala. Þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, svöruðu ekki  boðum um að mæta á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag. Til stóð að ræða sendiherramálið svokallaða en vegna sinnuleysis þingmannanna taldi nefndin að ekki væri hægt að fjalla um málið. Sigmundur Davíð var í þingsal í gær en svaraði ekki fundarboðinu þegar starfsfólk nefndarsviðs þingsins náði tali af honum.

Einnig höfðu Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra verið boðaðir á fundinn. Að sögn Helgu Völu svöruðu þeir báðir fundarboðinu. Guðlaugur Þór er erlendis og hefði ekki komist á fund nefndarinnar en Bjarni hafði boðað komu sína.