
Alvarlegt ef hægt er að hundsa fundarboð
„Það er eitt að eiga sjálfur erfitt með að sinna sínu starfi, en annað þegar komið er í veg fyrir störf heilla nefnda,“ segir Helga Vala. Þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, svöruðu ekki boðum um að mæta á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag. Til stóð að ræða sendiherramálið svokallaða en vegna sinnuleysis þingmannanna taldi nefndin að ekki væri hægt að fjalla um málið. Sigmundur Davíð var í þingsal í gær en svaraði ekki fundarboðinu þegar starfsfólk nefndarsviðs þingsins náði tali af honum.
Einnig höfðu Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra verið boðaðir á fundinn. Að sögn Helgu Völu svöruðu þeir báðir fundarboðinu. Guðlaugur Þór er erlendis og hefði ekki komist á fund nefndarinnar en Bjarni hafði boðað komu sína.