Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Alvarleg viðbrögð við alvarlegri árás

26.03.2018 - 22:18
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Aðgerðir íslenskra stjórnvalda gegn Rússum eru alvarleg viðbrögð við alvarlegri árás, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, starfandi forsætisráðherra. Fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi segir fjarri því að nýtt kalt stríð sé að hefjast.

Íslensk stjórnvöld ætla að taka þátt í samstilltum aðgerðum vestrænna ríkja gegn Rússum vegna eiturefnaárásarinnar í Salisbury á Englandi í byrjun mánaðarins. Fundum æðstu ráðamanna ríkjanna hefur verið frestað um óákveðinn tíma og ráðamenn ætla að sniðganga HM í Rússlandi í sumar. „Við bregðust við í samræmi við stærð okkar utanríkisþjónustu. Þetta eru alvarleg viðbrögð við alvarlegri árás og sendir vonandi mjög skýr skilaboð til stjórnvalda í Rússlandi að við líðum ekki svona,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sem er starfandi forsætisráðherra í fjarveru Katrínar Jakobsdóttur. 

Rúmlega tuttugu ríki ætla að senda meira en eitt hundrað rússneska embættismenn úr landi en slíkt er nær fordæmalaust. Leiðtogar Evrópusambandsins lögðust á sveif með Bretum og Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur segir þessa samstöðu sérstaka.  „Það er áberandi að evrópusambandsríkin eru að taka mjög skýra afstöðu með Bretlandi sem er á leiðinni úr Evrópusambandinu þannig að þetta er mjög sérstök staða og síðan er það að Bandaríkin og sérstaklega Bandaríkjaforseti, sem er auðvitað gagnrýndur það að vera helst til handgenginn Pútín Rússlandsforseta skuli taka þessa mjög áberandi afstöðu í dag,“ segir Silja Bára. 

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur sagði fyrr í dag að nýtt kalt stríð væri hafið. Samskipti Rússa og Vesturveldanna væru við frostmark og von væri á hörðum átökum á næstunni. Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra í Moskvu var gestur Kastljóss í kvöld og hann segir að þær þjóðir sem taka þátt í aðgerðunum séu að sýna samstöðu með Bretum en ekki endilega að lýsa því yfir að Rússar hafi staðið fyrir árásinni. Það sé fjarri því að nýtt kalt stríð sé að hefjast. „Kalda stríðið sem svo var kallað og stóð í áratugi byrjaði fljótlega eftir síðari heimsstyrjöld og lauk ekki fyrr en með hruni kommúnismans 1989 í Evrópu og svo með hruni Sovétríkjanna í kjölfarið. Það var alveg sérstakt fyrirbæri og mér finnst samlíkingin í rauninni alls ekki eiga við,“ sagði Albert.