Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Alvarleg staða sauðfjárræktar

04.08.2017 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sindri Sigurgeirsson, formaður stjórnar Bændasamtaka Íslands, óttast að einhverjir sauðfjárbændur fari í þrot eða flosni upp vegna boðaðrar verðlækkunar á lambakjöti. Bændasamtök Íslands hafa miklar áhyggjur af stöðu sauðfjárræktar á Íslandi.   

Um 35% lambakjöts hafa verið seld til útlanda. Þessi útflutningur hefur gengið mjög illa undanfarið vegna þess að Evrópa stendur í viðskiptastríði við Rússland og gengi íslensku krónunnar er sterkt. Birgðir af lambakjöti hafa safnast upp.  

„Það er gert ráð fyrir að þær verði 15 - 1600 tonn 1. september. Sem að undir venjulegum kringumstæðum hefði farið til útlanda?  Já og undir venjulegum kringumstæðum væri eðlilegt að væri 500 þannig að þetta er yfir 1000 tonnum sem er meira af birgðum en verið hefur.“

Auk þess hefur framleiðsla sauðfjárbænda gengið vel í ár og er yfir meðallagi. 
Sindri segir að viðræður um þessa stöðu í sauðfjárrækt hafi staðið yfir við ráðherra landbúnaðarmála frá því í vor. 
 
„Við skorumst ekkert undan því að fara í einhverjar aðgerðir til að draga úr frameiðslunni en það þarf líka að skoða leiðir til þess einfaldlega að minnka hérna birgðirnar.“

Afurðarstöðvar, bæði Kaupfélag Skagfirðinga og Sláturhúsið á Hvammstanga, hafa tilkynnt lækkun á afurðaverði. Þær hyggjast einungis greiða 65% af því verði sem greitt var í fyrra. Sindri segir að það þýði um 35% lækkun á afurðarverði sem einnig lækkaði um 10 prósent í fyrra.
 
„Þannig að það er að verða á tveimur árum yfir 2 milljarðar sem eru að fara út úr sauðfjárrækt.“

Lægra verð og einnig það að greiðslum til bænda hefur verið seinkað hafi í för með sér erfiðleika sem hafi mikil áhrif á rekstur sauðfjárbænda. „Og við óttumst það að sjálfsögðu að þetta geti leitt til þess að menn flosni upp frá búskap og mögulega fari í þrot.“
 
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV