Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Alþýðufylkingin býður ekki fram á næstunni

08.10.2018 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alþýðufylkingin hefur ákveðið að bjóða hvorki fram í næstu þing- né sveitarstjórnarkosningum. Þetta var ákveðið á aukalandsfundi flokksins um helgina. Flokkurinn hyggst taka sér tíma til að byggja upp grasrótarstarf í flokknum og fá þannig nýja félagsmenn til liðs við flokkinn.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundinum. Þar kemur jafnframt fram að þrátt fyrir að fylgi flokksins hafi ekki mælst hátt í kosningaúrslitum undanfarin ár hafi flokkurinn haft áhrif á umræðuna. Til dæmis haf flokkurinn sýnt fram á mikilvægi „félagsvæðingar fjármálakerfisins og annarra innviða samfélagsins og sett fram nokkuð ítarlega stefnu í umhverfismálum, heilbrigðismálum og fleiri málaflokkum,“ segir í ályktuninni. 

Þrátt fyrir að stefnumál Alþýðufylkingarinnar hafi vakið athygli hafi flokknum ekki tekist að virkja nægan fjölda til virkrar þátttöku í starfi flokksins, til að byggja upp öflugan forystukjarna. „Það hefur komið niður á árangri flokkssins og tiltrú á mikilvægi hans. Það hefur aftur komið niður á virkni félaganna, samstöðu og frumkvæði,“ segir í ályktuninni. Þá var samþykkt að fella úr lögum flokksins bann við því að vera í öðrum stjórnmálaflokkum. 

Þorvaldur Þorvaldsson var endurkjörinn formaður á fundinum. Vésteinn Valgarðsson lét af störfum sem varaformaður og var Þorvarður Bergmann Kjartansson kjörinn varaformaður. 

Alls voru átta ályktanir samþykktar á fundinum: Um að verja fullveldi landsins í orkumálum, um að hafna markaðsvæðingu í heilbrigðiskerfinu, gegn heimsvaldastefnu og stríðsstefnu, áskorun til verkalýðsforystunnar vegna komandi kjarasamninga, um umhverfisvá vegna kapítalismans, um húsnæðisvandann í landinu, um að lítið hafi breyst á tíu árum frá hruni og um stöðu og verkefni flokksins hér eftir og hingað til.

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV