Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Alþingishúsið opið gestum á fullveldisafmæli

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dyr Alþingishússins verða opnaðar almenningi laugardaginn 1. desember, þegar þess verður minnst að 100 ár eru frá því sambandslagasamningurinn tók gildi og Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir að fólki gefist þarna tækifæri til að sjá hluta af húsinu sem það hefur ekki aðgengi að aðra daga ársins.

Þingmenn og starfsmenn skrifstofu Alþingis veita leiðsögn um húsið og ræða við gesti. „Fólk fær að koma inn í þingsal, herbergin tvö við þingsalinn, og efri deildar salinn gamla. Við ætlum að bjóða fólki inn um Skálann og þar verður mynduð gönguleið úr gamla anddyri þinghússins upp í kringlu, gegnum þingsalinn og svo inn í matsalinn þar sem verður sýning á ýmsum munum sem tengjast fullveldinu og Alþingi,“ segir Helgi.

Í Skála verður sýning á ljósmyndum, skjölum og völdum tilvitnunum úr umræðum á þingi um sambandslagasamninginn, eins og segir á vefsíðu Alþingis. „Hópur starfsmanna hefur unnið við þetta og farið gegnum þingræður,“ segir Helgi. „Starfsmenn annast gæslu og leiðbeiningar en áhersla er lögð á það af hálfu forseta að þingmenn hafi líka hér talsverða viðveru og við höfum verið að skipuleggja í samvinnu við fomenn þingflokkanna að þingmenn verði til viðtals við fólk sem kemur í húsið, til dæmis inni í sal eða við herbergi þingflokkanna.“

Húsið verður opið milli klukkan 13:30 og 18:00 og aðgangur ókeypis. „Við höfum gert þetta nokkrum sinnum áður og það hefur verið geysilega mikil aðsókn. Við búum okkur undir að nokkur þúsund manns komi,“ segir Helgi. 
 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV