Alþingi fordæmi hörku Kínverja í Tíbet

29.11.2013 - 11:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Tíu þingmenn úr öllum flokkum nema Framsóknarflokknum hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem skorað er á kínversk stjórnvöld að hætta endurmenntunarþvingunum í Tíbet tafaralaust. Þá er Alþingi hvatt til að lýsa yfir áhyggjum af vaxandi ofbeldi og kúgun kínverskra stjórnvalda í Tíbet.

Í þingsályktunartillögunni er Alþingi einnig hvatt til að fordæma vaxandi hörku gagnvart friðsamlegum mótmælum í Tíbet, herkví í landinu verði aflétt og að kínversk stjórnvöld standi ekki í vegi fyrir því að SÞ geti ákveðið að senda sendinefnd til að kanna mannréttindabrot í Tíbet.

Kínversk stjórnvöld verði jafnframt hvött til að hefja opinberar friðar-og samningaviðræður við sérstaka sendinefnd Dalai Lama

Þá leggja þingmennirnir það til að íslensk stjórnvöld bjóðist til þess að vettvangur friðarviðræðnanna verði hér á landi - til að mynda í Höfða.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að fjölmörg þjóðþing hafi ályktað um ástandið í Tíbet.  12 handhafar friðarverðlauna Nóbels hafi sent forseta kínverska alþýðulýðveldisins bréf þar sem hann er hvattur til að halda áfram friðarviðræðum við fulltrúa tíbesku þjóðarinnar.

Þingmennirnir telja að Alþingi beri að taka afstöðu, ekki síst í ljósi þess að hingað komi æðstu embættismenn kínverska alþýðulýðveldisins með reglulegu millibili. „Við Íslendingar höfum siðferðislega skyldu samkvæmt fríverslunarsamningi okkar við Kína, sem mun taka gildi snemma árs 2014, að benda kínverskum yfirvöldum á að við sættum okkur ekki við mannréttindabrot af því tagi sem rakin hafa verið í greinargerðinni, “ segir meðal annars.