Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Alsír og Senegal keppa um Afríkubikarinn

epa07717249 Ferjani Sassi of Tunisia challenged by Idrissa Gana Gueye of Senegal (R) during the 2019 Africa Cup of Nations Semifinal match between Senegal and Tunisia at the 30 June Stadium, Cairo on the 14 July 2019.  EPA-EFE/MUZI NTOMBELA
Úr undanúrslitaleik Túnisa og Senegala Mynd: EPA-EFE - BACKPAGE

Alsír og Senegal keppa um Afríkubikarinn

15.07.2019 - 02:40
Það verða lið Alsírs og Senegals sem mætast í úrslitum Afríkubikarsins í knattspyrnu. Senegalar báru sigurorð af Túnisum síðdegis, með naumindum þó, einu marki gegn engu, og þetta eina mark var sjálfsmark Túnisans Dylan Bronn í uppbótartíma. Í kvöld mörðu Alsírmenn svo sigur á Nígeríumönnum, 2-1, og sigurmarkið í þeim kom líka á síðustu sekúndum þessa leiks, beint úr aukaspyrnu Riyads Mahrez, sem reyndist bókstaflega síðasta spyrna leiksins.

Alsíringar náðu forystu þegar skot Mahrezar hrökk af nígeríska varnarmanningum William Troost-Ekong, en Nígeríumenn jöfnuðu úr víti, sem Odion Ighalo tók. Allt stefndi í framlengingu þegar Mahrez, sem leikur með Englandsmeisturum Manchester City, skoraði í bláhornið efst úr aukaspyrnunni.

Úrslitaleikurinn fer fram í Kaíró á föstudag. Verður þetta í annað sinn sem Senegal keppir til úrslita í Afríkubikarnum, þeir töpuðu naumlega gegn Kamerún árið 2000 eftir vítaspyrnukeppni. Þetta verður heins vegar þriðji úrslitaleikur Alsíringa, sem töpuðu fyrir Nígeríu árið 1980 en náðu fram hefndum þegar þeir unnu þá - og Afríkumeistaratitilinn - tíu árum síðar.