Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Almannavarnir fylgjast grannt með

16.08.2014 - 16:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Fundur jarðvísindamanna frá Veðurstofu og Háskóla Íslands og almannavarna stendur yfir. Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi vegna jarðhræringa í Bárðarbungu á norðanverðum Vatnajökli. Á fundinum verður farið yfir stöðu mála.

Stöðugir skjálftar hafa verið norð-austan og aust-suð-austan Bárðarbungu undanfarinn sólarhirng. Á þriðja hundrað skjálfta hafa mælst á svæðinu. Talið er að um kvikuhreyfingu sé að ræða, þó engin kvika hafi enn brotið sér leið upp á yfirborðið.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila. „Þetta þýðir í sjálfu sér bara það að við erum að auka viðbúnað og vöktun,“ segir Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. „Vísindamenn eru búnir að setja vakt á þetta og sama hjá almannavörnum, bæði almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og eins hjá lögreglunni á Hvolsvelli og Húsavík.

Næsta stig við óvissustig almannavarna er hættustig. „Það þýddi að þá væru komnar vísbendingar um að gos væri að hefjast,“ segir Víðir. Þriðja stig væri neyðarstig, sem væri ef staðfest er að gos væri að hefjast.

Skjálftavirkni við Bárðarbungu. Mynd: Skjáskot af Veðurstofu Íslands.