Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Alltof fáar íbúðir í byggingu í Reykjavík

18.10.2016 - 13:36
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Hátt í tvöfalt fleiri íbúðir þyrftu að vera í byggingu í Reykjavík en raunin er. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði er minni nú en hún var um aldamótin, samkvæmt úttekt Capacent.

Nýlegar úttektir Capacent og Íslandsbanka gefa ekki bjarta mynd af þróun húsnæðismarkaðarins í Reykjavík á næstu misserum, því íbúðir sem nú er verið að byggja eða er áætlað að reisa virðast ekki svara þörfum samfélagsins. Útlit er fyrir að litlum íbúðum fækki hlutfallslega á næstunni, þvert á þörfina, samkvæmt úttekt Íslandsbanka.

Í úttekt Capacent, sem var gerð fyrir Reykjavíkurborg, segir að fjárfesting í íbúðarhúsnæði hafi enn ekki náð sér á strik frá hruni, og sé minni en hún var í kringum aldamótin. Capacent gerir ráð fyrir að á þessu og næsta ári þurfi 3.000 til 3.300 nýjar íbúðir í Reykjavík, en útlit er fyrir að rúmlega 1.700 íbúðir verði fullbyggðar á þeim tíma. Samkvæmt því þyrftu hátt í tvöfalt fleiri íbúðir að vera í byggingu í Reykjavík.

Jafnvel þótt horft sé til ársins 2020 ná áætlanir um nýbyggingar ekki alveg að svara þörfinni. Capacent áætlar þörfina vera 6.000 til 6.600 nýjar íbúðir, en samkvæmt áætlunum borgarinnar verða þær rúmlega 5.600.

En eru það ekki vonbrigði, miðað við það átak sem ráðist hefur verið í til að fjölga nýbyggingum? Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að annars vegar sé verið að vinna upp það sem vantar vegna þess að fasteignamarkaðurinn eða byggingarmarkaðurinn var í algjöru frosti eftir hrun. Hins vegar sé verið að mæta árlegri eftirspurn.

„En nú er staðan orðin þannig að mörg stór svæði sem voru lengi í þróun eru tilbúin til uppbyggingar. Þannig að ég bind vonir við það að þau fari hratt af stað, og jafnvel hraðar en við erum að spá núna, vegna þess að borgin er búin að deiliskipuleggja svæði fyrir 5.500 íbúðir, þó að innan við 2.000 af þeim séu farnar af stað.“

Dagur segir að ef byggingariðnaðurinn og þeir sem fjármagna byggingarnar taki mið af þeirri eftirspurn sem bæði greiningar Capacent og bankanna dragi fram ættu þessi verkefni að fara jafnvel ennþá hraðar af stað en borgin hafi spáð.

 

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV