Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Alltaf von á eftirskjálftum

30.08.2012 - 12:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Jarðskjálfti af stærðinni 4,6 mældist við Bláfjöll í hádeginu í dag. Upptökin voru við norðurenda skíðasvæðisins. Skjálftinn fannst víða á höfuðborgarsvæðinu en flest bendir til þess að skjálftinn hafi verið grunnur og að sögn jarðfræðings er von á eftirskjálftum.

Einar Kjartansson, jarðfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að flest bendi  til þess að hann hafi verið grunnur en nýjustu mælingar gefa til kynna að hann hafi verið á 5,8 kílómetra dýpi. Skjálftinn var á Reykjanes-skjálftabeltinu en þar hefur ekki mælst skjálfti síðustu þrjú til fjögur árin.

Einar segir að alltaf komi eftirskjálftar eftir svona stóran skjálfta og þegar hafi mælst nokkrir, ekki sé hins vegar víst að neinn þeirra hafi fundist, styrkleiki þeirra geti verið upp að tveimur.

Einar segir að skjálftans hafi orðið vart fyrir austan fjall, á Akranesi og kannski í Borgarfirði. Hann hafi hins vegar ekki frétt af neinum skemmdum.