Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Alltaf smá sorglegt að pakka sýningu niður

Mynd:  / 

Alltaf smá sorglegt að pakka sýningu niður

09.03.2019 - 13:00

Höfundar

„Þetta er alltaf smá sorglegt. Það er mjög ólíklegt að þetta verði nokkurn tímann sett upp aftur nákvæmlega eins og þetta var hérna í D-salnum,” segir Leifur Ýmir Eyjólfsson, myndlistarmaður, þar sem hann er í óða önn að taka niður einkasýninguna Handrit í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi.

Í lok febrúar hlaut Leifur hvatningarverðlaun Íslensku myndlistarverðlaunanna 2019 fyrir sýninguna, sem samanstóð af 255 leirplötum með innbrenndum handskrifuðum setningum, orðum og textabrotum. Í rökstuðningi dómnefndar segir að Leifi „takist með eftirminnilegum hætti að samþætta inntak og efnivið í sýningu sem fylgir áhorfandanum út úr safninu og inn í hvunndaginn þar sem hún heldur áfram að gerjast.“

Mynd með færslu
Mynd með færslu

Leifur er fæddur árið 1987, hann lærði keramík og mótun við Myndlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist frá Myndlistardeild LHÍ árið 2013. Undanfarin ár hefur hann haldið úti ferðagrafíkverkstæðinu Prent og vinir með Sigurði Atla Sigurðssyni, og hafa þeir sett upp verkstæðið víða um land og erlendis.

Melankólísk tiltekt

Leifur segir að þó það sé ákveðin melankólía í því að taka niður sýningu í hinsta sinn sé það hins vegar góð tilfinningu að ganga skipulega frá þessum mikla fjölda verka. Þegar hann kom með leirplöturnar í safnið var þeim bara hrúgað í bananakassa en nú hefur hann smíðað viðarkassa utan um þær, sett í öskjur með silkipappír og merkt skilmerkilega hvar hvert verk er staðsett.  „Ég ætla ekki að gerast svo dramatískur að kalla þetta líkkistur. En það hefur verið mikill hausverkur að flokka þetta og setja þetta allt í kerfi,“ segir Leifur.

Mynd með færslu
Mynd með færslu
Mynd með færslu

Setningar, orð og textabrot sem brennd hafa verið í leirplöturnar 255 eru hversdagslegar og virðast oftar en ekki ómerkilegar, eins og þær séu sagðar í hálfkæringi eða hugsunarleysi. En einmitt þess vegna eru þær óræðar og geta jafnvel virkað margslungnar.

Texti og taktur

„Ég hef talað um þetta sem fyrri part, og svo botnar áhorfandinn verkið. Mér finnst eftirsóknarvert að gera verk sem ég klára ekki. Að verkið og þeir sem upplifa það geti mæst, og verkið haldi áfram að verða til. Mér finnst það rosalega fallegt,“ segir Leifur.

Texti spilar stórt hlutverk í verkum Leifs og hefur hann talað um í viðtölum að hann hafi upphaflega ætlað að verða ljóðskáld. Hann hefur þó einnig prófað sig áfram í öðrum listformum og spilar meðal annars á trommur með brimbrettarokksveitinni Bárujárn. Hann segir það vera svolítil tónlist í sýningunni Handrit. „Ég setti til dæmis auðar síður í verkið, það er þögnin sem músíkin sprettur úr,“ segir Leifur og bætir við:  „Það er taktur og endurtekning þarna, þetta tengist. Ég spilaði alltaf sama taktinn, sörf-taktinn. En maður getur spilað sama taktinn aftur og aftur en gefið honum ný blæbrigði.”

Mynd með færslu