Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Alltaf langað til að takast á við veruleikann

Mynd: RÚV / RÚV

Alltaf langað til að takast á við veruleikann

08.12.2016 - 11:07

Höfundar

Nýútkomið smásagnasafn Andra Snæs Magnasonar, Sofðu ást mín, er persónulegasta verk hans til þessa. Andri Snær segist fram að þessu hafa skapað þá heima sem birtast í verkum hans, en í þetta skiptið sé hann að skrifa um heiminn sem skapaði hann – og hans kynslóð.

Verkið samanstendur af sjö raunsæjum smásögum – kjarnasögum, eins og Andri Snær orðar það, sem fleyga inn í ævi hans og kynslóðar. „Ég þurfti hreinlega að fá leyfi frá fólki til að fá að skrifa um ákveðna hluti. Hún fer miklu nær mér og fólkinu í kringum mig.“

Andri Snær hefur hingað til ekki verið þekktur fyrir hrátt raunsæi í skáldverkum sínum. Þó það freisti að halda því fram að í verkinu kveði við nýjan tón, segir Andri Snær hann í raun hafa verið undirliggjandi hjá honum í fjölda ára. „Ég hef átt þennan tón í brotum í gegnum allan ferilinn.“

„Mig hefur alltaf langað til að takast á við veruleikann,“ segir Andri Snær. „Kannski eins og konseptlistamanni langar til að sanna að hann geti líka málað mynd af fjalli.“