Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Alltaf langað til að gera sólóplötu“

Mynd: Hulda G. Geirsdóttir / RÚV

„Alltaf langað til að gera sólóplötu“

08.03.2018 - 14:30

Höfundar

Rokksöngvarinn Stefán Jakobsson sem kannski er þekktastur fyrir söng sinn með hljómsveitinni Dimmu leggur nú lokahönd á sína fyrstu sólóplötu. Hann er þó hvergi nærri hættur með Dimmu.

Stebbi Jak, eins og hann er oftast kallaður, notast við listamannsnafnið JAK á nýju plötunni og hann kíkti í spjall til Huldu Geirsdóttur á Dagvaktina á Rás 2 í dag þar sem þau ræddu nýja efnið, líf íslenska rokkarans og hvernig er að gera út tónlistarferil úr norðlenskri sveit. Stebbi fullvissaði aðdáendur Dimmu um að hann væri ekki á leið úr Dimmu heldur eingöngu að uppfylla gamlan draum um sólóplötu. 

„Mig hefur alltaf langað til að gera sólóplötu. Ég ætlaði að gera sólóplötu fyrir þrítugt og ég er fæddur 1980, þannig ef einhver kann að reikna þá er ég ekki þrítugur. En rétt upp úr þrítugu byrja ég í Dimmu og þá fer leiðin svolítið þangað. Ég reyni bara að sveiflast með því sem er að gerast, það er rosalega óhagstætt að reyna að berjast á móti straumnum, þannig að það er bara sú stefna tekin. Svo bíður maður bara eftir því að straumarnir liggi þannig að það sé eðlilegt að gera þessa plötu – og það er núna.“

Hér má hlusta á viðtalið í heild sinni og heyra fyrsta lagið sem út kemur af væntanlegri sólóplötu.