Allt upp í loft vegna hitaveituframkvæmda

17.04.2014 - 13:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Allt er upp í loft í Eyja- og Miklaholtshreppi, á sunnanverðu Snæfellsnesi, vegna hitaveituframkvæmda. Lögregla var kölluð til í morgun. Ásakanir ganga á víxl milli þeirra sem standa að framkvæmdunum og annara sem reyna að koma í veg fyrir þær á þeim forsendum að farið hafi verið að stað í óleyfi.

Framkvæmdir hófust í gær við lagningu hitaveitu frá jörðinni Lynghaga  að Miðhauni I, á vegum félagsbúsins þar. Miðhraun II er í eigu fjölskyldu Ólafs Ólafssonar, athafnamanns, og einnig ein jarðanna sem hitaveitulögnin fer í gegnum. Hann, og  fleiri. hafa mótmælt þessum framkvæmdum. 

Þröstur Aðalbjörnsson, bóndi á Stakkhamri og stjórnarmaður í Hitaveitu Eyja og Miklaholtshrepp segir Sigurð Hreinsson, bónda á Miðhrauni I, hafa farið í framkvæmdir í leyfisleysi. „Það er í sjálfu sér nokkuð kómískt að hefja framkvæmdir um leið og sýsluskrifstofa lokar þannig að það er ekki hægt að setja lögbann á verkið og þeir ætla sér greinilega að vinna páskahelgina að þessu verkefni. Eigendur Eiðhúsa komu með sín tæki og lögðu fyrir framkvæmdina og með því var verkið stoppað í gærkvöldi þar sem lögregla mætti á staðinn til að ekki kæmi, í rauninni, til handalögmála,“ segir Þröstur.

Þröstur segir að samkvæmt símtali hafi einn lent í því að Sigurður virtist hafa ekið á manninn og hans meðreiðarsveinar gengið í skrokk á honum.

Sigurður Hreinsson sagði það fjarstæðu að ekið hefði verið á þá sem mótmæltu framkvæmdunum, né þeir beittir ofbeldi á annan hátt. Hinsvegar hefðu menn verið að þvælast fyrir þar sem verið var að vinna með tæki og gert það á eigin ábyrgð.
Sigurður segir þessar framkvæmdir hafa legið fyrir mánuðum saman og hafi menn viljað knýja fram lögbann þá hefðu verið nóg tækifæri til þess. Það séu hinsvegar engar forsendur  fyrir slíku þar sem hann hafi leyfi frá vegagerðinni og lögnin sé á veghelgunarsvæði hennar. 

Að sögn Þrastar var boðað til samstöðufundar íbúa í Eyja- og Miklaholtshreppi, til að mótmæla hitaveituframkvæmdunum, nú rétt  fyrir hádegi. Þá segir hann að hreppsnefndarfundur verði haldinn  seinna í dag. Sigurður Hreinsson segist hinsvegar ekki hafa verið boðaður á hreppsnefndarfund í dag  og eigi hann þó sæti í hreppsnefndinni.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi