Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Allt um sveitarstjórnarkosningar á vefnum

Mynd með færslu
 Mynd:
Kosið verður til sveitarstjórna 31. maí. Fjallað verður ítarlega um kosningarnar og aðdraganda þeirra í fréttum RÚV, í útvarpi, sjónvarpi og vef. Allar upplýsingar verða aðgengilegar á kosningavef RÚV.

Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttamaður hefur yfirumsjón með kosningaumfjöllun RÚV. Hann segir sérstaka áherslu verða lagða á að efni verði aðgengilegt á vefnum, en allar fréttir, fréttaskýringar og viðtöl verður hægt að nálgast á kosningavef RÚV, ruv.is/kosningar. „Við erum að fara af stað með fréttaskýringar í sjónvarpstímanum okkar. Við heimsækjum 21 af stærstu sveitarfélögum landsins, og við ætlum að gera fréttaskýringar um pólitíska stöðu í þeim öllum. Síðan erum við með mjög stóran og umfangsmikinn kosningavef, þar sem að við erum með umfjöllun um öll 74 sveitarfélög landsins. Þar er nú þegar búið að setja inn fréttir úr viðkomandi sveitarfélögum, upplýsingar um stöðu sveitarfélagsins, fréttaskýringar um mörg sveitarfélög og ennþá fleiri eiga eftir að koma inn á vefinn eftir því sem að líður nær kosningum,“ segir Heiðar.

Ekkert sveitarfélag verður undanskilið og kjósendur um allt land geta nálgast upplýsingar um framboð og frambjóðendur í sínu sveitarfélagi. „Það er markmið okkar í þessari umfjöllun að vera landsdekkandi, að dekka öll sveitarfélögin, bæta þjónustuna þá með þessum hætti, draga úr sjónvarpsumfjöllun og nýta þá kraftana betur til þess að setja hlutina á vefinn og þar með getum við sinnt fleiri sveitarfélögum og öllum kjósendum eins vel og hægt er.“