Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Allt sem getur fokið er að fjúka“

02.11.2012 - 11:18
Mynd með færslu
 Mynd:
„Veðrið er verst hérna á höfuðborgarsvæðinu. Í morgun voru flest útköll í efri byggðum, Mosfellsbæ og Grafarholti. Síðustu stundina hefur þetta færst töluvert niður í bæinn og mikið um að vera í miðbænum, töluvert út um allan bæ en mikið í miðbænum,“ segir Ólöf Baldursdóttir hjá Landsbjörgu.

Ráðist var í stórútkall hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg vegna veðursins á höfuðborgarsvæðinu. „Við erum búin að kalla út allar sveitir á höfuðborgarsvæðinu, gerðum það í morgun. Áðan var ákveðið að bæta í. Við höfum kallað út sveitir í Árnessýslu og af Suðurnesjum því útlitið næstu klukkustundirnar er afar slæmt og það á væntanlega bara eftir að bæta í vind næstu eina til tvær klukkustundirnar.“

Ólöf segir slysavarnafólk koma að margvíslegum verkefnum enda margt sem fjúki. „Þetta eru þakplötur, þakkantar, girðingar, tengivagnar, við höfum séð hjólhýsi hreinlega splundrast í höndunum á björgunarsveitarfólki. Þetta er alls kyns. Allt sem getur fokið er að fjúka.“

Hjólhýsi í Mosfellsbæ splundraðist í óveðrinu. Mynd: Anna Kristín Pálsdóttir. 

Þakplötur fjúka í Mosfellsbæ. Mynd: Anna Kristín Pálsdóttir.