Allt sem er ómögulegt er spennandi

Mynd: Rúv / Baltasar Kormákur

Allt sem er ómögulegt er spennandi

18.06.2018 - 18:57
Baltasar Kormákur var mánudagsgestur í Núllinu.

Baltasar er fæddur á Selfossi árið 1966. Hann ólst upp í Lundi í Kópavogi sem þá var bóndabær en í dag er þar mikil íbúðabyggð með blokkum. Fyrir stuttu var kvikmyndin Vargur frumsýnd sem Baltasar framleiddi en þar var ein blokkin notuð sem morðvettvangur á æskuslóðum hans. Seinna flutti hann svo í Vesturbæinn þar sem hann bjó út æskuna.

Þegar Baltasar fór í Menntaskólann í Reykjavík segist hann ekki hafa haft neitt sérstakar einkunnir úr grunnskóla. Þar hafi hann mætt illa og sofið mikið. Þegar hann byrjaði í MR hafi hann átt góða spretti og dúxað í raungreinum en þá stefndi hann á að verða dýralæknir. Leiklistin hafði þó vinninginn og tók Baltasar þátt í leikfélagi skólans Herranótt öll árin og varð einnig formaður Herranætur. Á lokaárinu í MR lék hann í verki sem heitir Húsið á hæðinni í leikstjórn Þórhildar Þorleifsdóttur og er um sögu Menntaskólans í Reykjavík. Leikverkið var sjónvarpað og sýnt í Ríkissjónvarpinu.

Á sama tíma og Baltasar var í stúdentsprófum var hann í inntökuprófum fyrir leiklistarskólann og svaf ekki í viku. Hann náði þó báðum prófunum og gekk úr MR í leiklistarskólann. Með honum í bekk í leiklistarskólanum voru meðal annars Ingvar E. Sigurðsson, Edda Arnljótsdóttir, Harpa Arnardóttir og Björn Ingi Hilmarsson.

Stuttu eftir leiklistarskólann fór Baltasar að líta í kringum sig og spyrja sig hvort hann ætlaði sér að leika á sviði Þjóðleikhússins alla ævi. Það var ekki það sem hann sá fyrir sér. Hugurinn leitaði annað.

Eftir útskrift lék hann Rómeó í Rómeó og Júlíu og Kæru Jelenu sem varð gríðarlega vinsæl sýning og var sýnd um allt land. Fjórum árum eftir útskrift setti Baltasar svo upp sýna fyrstu sýningu, söngleikinn Hárið. Sú sýning varð algjör bomba. Boðað var í prufur og sýningin fékk mikið umtal, meira að segja áður en æfingar hófust. Þar steig á svið heil kynslóð af nýjum leik- og söngvurum. Söngleikurinn var settur upp að sumri til sem hafði ekki verið gert áður í íslensku leikhúsi og sló rægilega í gegn. Sýningin var sýnd frá sumri fram að jólum og hægt hefði verið að halda áfram sýningum en húsnæðið var bókað og því ekki hægt að halda áfram.

Hér má sjá umfjöllun um Hárið 1994

Mynd: Rúv / Hárið 1994

Á þessum tíma var Kaffibarinn einn heitasti staður miðbæjarins. Inni á staðnum voru myndatökur bannaðar, bannað var að segja blaðamönnum hverjir hafi verið inni á staðnum þegar „Hverjir voru hvar“-dálkarnir byrjuðu í blöðunum. Baltasar eyddi miklum tíma á staðnum og var í reikning sem var orðinn nokkuð stór hver mánaðamót. Hann reiknaði út að ef hann myndi kaupa barinn og drekka frítt þá yrði reikningurinn áreiðanlega sá sami. Sem hann svo gerði.

Eftir uppsetninguna á Hárinu buðust Baltasar mörg tækifæri innan leikhúsanna sem leikstjóri. Þá tók við næsta ómögulega verkefni: að stofna sitt eigið leikhús, Loftkastalann. Fjögurhundruð sæta leikhús. Sem gekk í um tíu ár. Hann segir það hafa verið erfiðan rekstur. Leikhúsið varð vinsælt og margar sýningar voru settar upp. Það var einnig mjög umdeilt og mikið skrifað um það í blöðunum.

„Alltaf þegar það verður einhver hreyfing og eitthvað breytist þá verða menn hræddir og reiðir. Reiði er yfirleitt bein afleiðing af hræðslu. Þannig það voru alls konar kverúlantar og menn sem að skrifuðu óhróður um okkur og fannst þetta algjörlega fyrir neðan allar hellur að við værum að gera þetta. En ég held að menn geti horft á þetta í öðru ljósi í dag og séð að þarna voru menn að hreyfa við hlutunum, breyta til og gera öðruvísi.“

Baltasar lék í fjölda kvikmynda meðal annars Agnesi, Englum alheimsins, Veggfóðri og Djöflaeyjunni. Hann varð forvitinn og var farinn að máta sig við leikstjórnarstólinn og kynna sér vinnuna við að gera kvikmyndir.

Á þessum tíma var starfsumhverfið milli íslenskra leikhúsa og kvikmynda aðskildara en það er í dag. Baltasar upplifði sig sem sáttasemjara leikhúsa og bíómynda á þessum tíma. Það hafi verið ofboðslegt hatur þarna á milli. Kvikmyndaleikstjórar sögðu að íslenskir leikarar gætu ekki leikið í bíómyndum og í leikhúsinu var sagt að bíómyndirnar væru ömurlegar og illa skrifaðar. Baltasar stóð á báðum stöðum og hlutstaði rausið á báðum stöðum.

Síðustu ár hefur hann fært sig meira út í kvikmyndagerð. Það er orðið langt síðan hann vann í leikhúsi og segist hann sakna þess. Fyrsta kvikmyndin hans var 101 Reykjavík upp úr bók Hallgríms Helgasonar. Síðan eru það kvikmyndir eins og Hafið, Djúpið og nú Adrift sem eiga það allar sameignlegt að tengjast sjónum. Hann segist hafa blæti fyrir sjónum.

Hefur enga sérstaka ánægju af Ameríku
Eins og áður hefur komið fram hefur Baltasar margoft verið boðið að taka að sér stór verkefni í Hollywood en hann hefur meiri áhuga á að efla íslenskt kvikmyndalíf, koma með stór verkefni hingað heim og búa til tækifæri fyrir aðra Íslendinga í hinum stóra heimi.

Vinnan ástríða
Frá upphafi ferilsins hefur Baltasar haft mikið að gera og verið með mörg verkefni í gangi í einu. Hann hefur ofboðslega ánægju að því sem hann gerir en þetta geti verið brjálæði á köflum. Fram undan er undirbúningur á stórmyndum erlendis, Ófærð 2, kvikmyndaþorp í Gufunesi og fleira.

Baltasar frumsýndi á dögunum tólftu kvikmynd sína Adrift. Myndin er um par sem hittist á Tahítí 1983. Þau taka að sér að sigla lúxusskútu þvert yfir Kyrrahafið og lenda þar í gríðarlegum stormi. Myndin er byggð á bók sem Tami Oldham skrifaði um minningu sína um þennan atburð.

Hægt er að hluta á viðtalið við Baltasar Kormák í heild sinni hér að ofan.