Baltasar lék í fjölda kvikmynda meðal annars Agnesi, Englum alheimsins, Veggfóðri og Djöflaeyjunni. Hann varð forvitinn og var farinn að máta sig við leikstjórnarstólinn og kynna sér vinnuna við að gera kvikmyndir.
Á þessum tíma var starfsumhverfið milli íslenskra leikhúsa og kvikmynda aðskildara en það er í dag. Baltasar upplifði sig sem sáttasemjara leikhúsa og bíómynda á þessum tíma. Það hafi verið ofboðslegt hatur þarna á milli. Kvikmyndaleikstjórar sögðu að íslenskir leikarar gætu ekki leikið í bíómyndum og í leikhúsinu var sagt að bíómyndirnar væru ömurlegar og illa skrifaðar. Baltasar stóð á báðum stöðum og hlutstaði rausið á báðum stöðum.
Síðustu ár hefur hann fært sig meira út í kvikmyndagerð. Það er orðið langt síðan hann vann í leikhúsi og segist hann sakna þess. Fyrsta kvikmyndin hans var 101 Reykjavík upp úr bók Hallgríms Helgasonar. Síðan eru það kvikmyndir eins og Hafið, Djúpið og nú Adrift sem eiga það allar sameignlegt að tengjast sjónum. Hann segist hafa blæti fyrir sjónum.
Hefur enga sérstaka ánægju af Ameríku
Eins og áður hefur komið fram hefur Baltasar margoft verið boðið að taka að sér stór verkefni í Hollywood en hann hefur meiri áhuga á að efla íslenskt kvikmyndalíf, koma með stór verkefni hingað heim og búa til tækifæri fyrir aðra Íslendinga í hinum stóra heimi.
Vinnan ástríða
Frá upphafi ferilsins hefur Baltasar haft mikið að gera og verið með mörg verkefni í gangi í einu. Hann hefur ofboðslega ánægju að því sem hann gerir en þetta geti verið brjálæði á köflum. Fram undan er undirbúningur á stórmyndum erlendis, Ófærð 2, kvikmyndaþorp í Gufunesi og fleira.
Baltasar frumsýndi á dögunum tólftu kvikmynd sína Adrift. Myndin er um par sem hittist á Tahítí 1983. Þau taka að sér að sigla lúxusskútu þvert yfir Kyrrahafið og lenda þar í gríðarlegum stormi. Myndin er byggð á bók sem Tami Oldham skrifaði um minningu sína um þennan atburð.