Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Allt rautt í Kauphöllinni nema Icelandair

20.03.2019 - 17:06
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Virði allra félaga í Kauphöll Íslands lækkaði í dag, nema Icelandair. Við lokun markaða í dag hafði hlutabréfaverð í Icelandair hækkað um 10,8 prósent í dag.

Hluturinn kostaði 7,98 krónur í dag miðað við 7,20 krónur við lokun markaða í gær. Samtals var verslað með bréf í Icelandair fyrir 166 milljónir króna í dag.

Þetta var einn sterkasti dagur Icelandair í Kauphöllinni frá áramótum. Virði bréfa í flugfélaginu er hins vegar enn mun lægra í dag en það var við áramót. Virði bréfanna er 15,6 prósent lægra nú en við lokun markaða 2. janúar.

Gera má ráð fyrir að um sé að ræða viðbragð við tíðindum af WOW air sem sagt er hafa óskað eftir ríkisábyrgð skulda sem félagið þarf að taka fyrir rekstrinum. Óvíst er hvort WOW eigi enn í viðræðum við bandaríska félagið Indigo Parters sem vill fjárfesta í WOW air.

Jafnvel þó tölur annarra félaga í Kauphöllinni hafi verið rauðar var ekki um miklar sveiflur að ræða. Samtals var verslað fyrir ríflega 3,2 milljarða í dag.

Virði bréfa Eikar fasteignafélags lækkuðu mest, eða um fjögur prósent í viðskiptum fyrir 255 milljónir. Verð annars fasteignafélags, Reita, lækkaði einnig um 3,8 prósent í viðskiptum fyrir 404 milljónir króna. Þriðja fasteignafélagið, Reginn, lækkaði um 3,8 prósent í viðskiptum fyrir 125 milljónir.

Lang mest var verslað með bréf í Marel eða fyrir 749 milljónir króna. Virði bréfa Marels lækkaði um 0,2 prósent.