Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Allt of ljótur til að leika Diddú

Mynd:  / 

Allt of ljótur til að leika Diddú

25.01.2019 - 11:52

Höfundar

Uppistandarinn og fjölmiðlamaðurinn Sólmundur Hólm er að undirbúa nýja uppistandssýningu þar sem hann hermir eftir þekktum Íslendingum. Sólmundur segist vera ágætur að elda og að keyra bíl en segist bestur í að vera eftirherma.

Sólmundur Hólm vakti athygli í fyrra þegar hann ákvað, nýstiginn upp úr alvarlegum veikindum, að setja upp sína eigin uppistandssýningu. Sú sýning gekk framar vonum og nú snýr hann aftur með sýninguna Varist eftirhermur en þar tínir Sólmundur saman allar þær eftirhermur sem hann hefur lagt stund á, þar sem fjölmargir nafntogaðir Íslendingar verða fyrir barðinu á góðlátlegu gríni Sóla.

„Þegar horft er á plakatið fyrir nýja sjóið þá sést til dæmis til Hebba þar (Herberts Guðmundssonar), ég valdi aðallega þá sem eru sjónrænt góðir, þá sem hafa einkennandi útlit. Gylfi Ægisson og Hebbi eru báðir mjög góðir og Gísli (Einarsson í Landanum) auðvitað líka,“ segir Sólmundur um myndina sem hann vann í tengslum við fyrirætlaða sýningu. Á myndinni má sjá þessa þrjá heiðursmenn auk Páls Óskars en eftirhermurnar eru mun fleiri og ekki allir sem rötuðu á plakatið. „Jájá, Jakob Bjarnar (Grétarsson) er til dæmis mest á prenti og stöku sinnum í útvarpi, ég gat ekki verið með mynd af útvarpi á plakatinu. Svo hef ég hermt eftir Diddú líka og gerði atlögu að henni á plakatið. Ég er bara allt of ljótur til að leika Diddú. Hún er svo sæt. Þegar ég er kominn með rauða hárkollu og í rauða kápu, þá er ég bara alls ekki hugguleg kona,“ segir Sólmundur.    

Sólmundur fer á flakk með sýningu sína en hann byrjar í Hafnarfirði og Reykjavík. Eftirhermur hafa lengi verið hans sérgrein og auðvitað margar sem voru á dagskránni á síðustu sýningu hans þó nú séu þær í forgrunni. „Pálmi Gunnarsson kemur fyrir í sýningunni auðvitað, ég er ekki búinn að ákveða hver innkoma hans verður en hann Pálmi verður auðvitað að koma. Ég hef auðvitað hermt eftir þessu fólki áður, í síðustu sýningu líka en allt þetta fólk verður sett í nýjar aðstæður núna. Þarna er ég auðvitað að gera það sem ég geri best, myndi ég halda, ég er reyndar mjög góður að elda líka og er góður bílstjóri en ég geri þetta betur. Þarna verður svona sagan mín sögð og þessara karaktera,“ segir Sóli Hólm.

Það hefur lengi verið mikil íþrótt að herma eftir öðrum og oftast er þetta góðlátlegt og saklaust grín. En hvað ætli það sé sem geri eftirhermur svona fyndna? Sólmundur hefur velt því fyrir sér því það sé sannarlega ekki alltaf sem eftirhermurnar eru með ægilega brandara. „Einmitt, þú þarft ekki alltaf að segja eitthvað fyndið. Maður fer auðvitað ekki að lesa upp einhvern þurran texta orðrétt, maður býr til brandara í kringum orð þeirra,“ segir Sólmundur og ítrekar að það mikilvægasta sé ekki að muna einhver texta viðkomandi utanbókar heldur að læra hvernig fólk myndi tala og svara. „Til dæmis eins og með Gylfa Ægisson, ég veit alveg hvaða skoðun hann hefur á málum og get svarað hverri fyrirspurn sem er fyrir hann,“ segir Sóli sem skrifaði ævisögu Gylfa árið 2009.

„Undantekningalaust taka þessu allir mjög vel,“ segir Sólmundur um alla þá sem hann leggur stund á að herma eftir. „Ég alla vega held það, þau sýna mér ekki annað. Kannski er þetta svona eins og þegar fólk var að stríða manni í grunnskóla, þá lét maður eins og maður hefði gaman að því, þá hættu þau því. Kannski eru þau að beita sömu aðferð. Maður getur auðvitað hermt eftir fólki og gert grín án þess að það sé rætið og leiðinlegt. Ég legg mig yfirleitt fram við það þegar ég er að herma eftir fólki að ef það myndi birtast í salnum, þá myndu þau hlæja líka. Ekki eins og vera nappaður við að baktala. Mínar Klausturupptökur myndu alltaf þola dagsljósið,“ segir Sólmundur Hólm að lokum.