Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Allt í plasti, líka við Ísland

24.09.2014 - 19:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Á hverju ári eru framleidd hundrað milljón tonn af plasti og framleiðslan eykst stöðugt. Einungis um fimm prósent plastsins sem er framleitt skilar sér á endurvinnslustöðvar. Helmingurinn er urðaður en við vitum ekki hvað verður um afganginn. Ljóst er að stór hluti plastúrgangsins endar í hafinu.

Plastagnir í hverju einasta sýni

Hafstraumarnir hrífa plastið með sér í ferðalag sem okkur mun ekki endast ævin til að fylgjast með. Marcus Eriksen, bandarískur doktor í
raungreinakennslu, hefur síðastliðin ár siglt um höfin sjö, ásamt teymi vísindamanna, og tekið yfirborðssýni. Síðast var siglt frá Bermúda til Íslands.
Sýni voru tekin kvölds og morgna og í hverju einasta fundust plastagnir.

 Líka við Ísland

VIð upphaf leiðangursins var vitað með vissu að plastagnir væri að finna á Bermúdasvæðinu. Svæðið sunnan Íslands hafði aftur á móti ekki
verið rannsakað til hlítar. Í ljós kom að plastagnir var einnig að finna þar. Ekki einungis í hringiðu hafstraumanna heldur einnig utan hennar. Plastúrgangurinn sem berst í hafið brotnar smám saman niður, ekki í frumefni sín heldur í sífellt smærri plastagnir. Hafstraumar leiða til
þess að plast safnast upp á vissum svæðum svo sem í Kyrrahafinu þar sem stærstu plasteyju heims er að finna.

Dæmisaga: Johnson fékk sér kók

Tökum skýringardæmi: Árið 2008 fór John Johnson í sólbað á Coronado-strönd í Kaliforníu. Það var heitt í veðri og hann
keypti sér kók til að svala þorstanum. Hvort sem um var að kenna almennu kæruleysi eða sólsting ákvað Johnson að skilja flöskuna eftir í flæðarmálinu og þaðan lagði hún upp í langt og strangt ferðalag. Flaskan barst með Kaliforníustraumnum til Mexíkó. Þaðan náði Norðurmiðbaugsstraumurinn henni og þau urðu samferða vítt og  breitt um Kyrrahafið. Einhvers staðar undan ströndum Japans rændi Kurushiro-straumurinn henni. Sex árum eftir að ævintýrið hófst, sumarið 2014, náði Norður-Kyrrahafsstraumurinn loks tökum á flöskunni og
skolaði henni upp að strönd plasteyjunnar stóru sem snýst hægt um sjálfa sig í hvirfli stórra hafstrauma. Eyjan er ekki þétt í sér, heldur er hún í raun
hringiða smárra plastagna, þó innan um þær megi finna flöskur, veiðarfæri og skó á stangli.

Kornmaskarnir hættulegir
Sumar plasttegundir sökkva þegar þær brotna niður þar sem þær verða eðlisþyngri en vatn. Djúpsjávarstraumar dreifa þeim þá um höfin sjö.
Smáar plastagnir verða þó ekki einungis til við niðurbrot stærri plasthluta. Við losum heilmikið af þeim út í hafið með skólpvatni. Snyrtivörufyrirtæki
stæra sig gjarnan af kornmöskum og líkamsskrúbbum sem eiga að hreinsa húðina fullkomlega með hjálp örsmárra agna úr hörðu plasti. Þá inniheldur tannkrem oft plastagnir.

Hættulegir eiginleikar

En hvaða áhrif hefur þessi mikli plastvandi á lífríkið. Mjög slæm áhrif segir Eriksen. Áhrifin á lífverur eru einkum tvenns konar. þær geta fest
sig í plastrusli, einkum í netum og girni og þær geta étið plast eða plastagnir. Dýr sem nærast á svifi sem þau sía úr sjónum fá agnirnar ofan í sig
og önnur dýr geta innbyrgt stærri plaststykki ef þau álíta það vera fæðu. Plast hefur hættulegan eiginleika. Það virkar eins og svampur, dregur í sig ýmis eiturefni. Þessi efni safnast svo upp í sjávarlífverum og fikra sig upp fæðukeðjuna.

Einnota en eilíft

En hver er lausnin við plastvandanum? Eriksen segir lausnina þríþætta. Í fyrsta lagi verði almenningur að breyta neyslumynstri sínu og hegðun. Í öðru lagi þurfi ríkisstjórnir og sveitarfélög að efla lög og reglugerðir og stuðla að ábyrgari meðhöndlun úrgangs. Í mörgum þróunarlöndum séu engin lög til taks, sorp fari ekki í neinn sérstakan farveg og sé oft hent beint í hafið. Í þriðja lagi eru það svo framleiðendurnir en samkvæmt Eriksen þurfa þeir að fara að framleiða hentugri umbúðir. Plastumbúðir, svo sum utan af mat, séu það versta og þversögnin sem einkennir þær óþægileg, þær eru einnota en endast samt að eilífu. Hann vill samt ekki að allri plastframleiðslu verði hætt. Segir plast nauðsynlegt og notað til ýmissa góðra verka. Framleiðsla einnota plastumbúða sé þó blátt áfram heimskuleg.