Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

„Allt hristist í 45 sekúndur“

12.05.2015 - 08:29
Gísli Rafn að störfum á Filippseyjum - Mynd: Gísli Rafn Ólafsson / Facebook
Mjög sterkur eftirskjálfti skók Nepal um 70 kílómetra norðvestur af höfuðborginni Katmandu klukkan rúmlega sjö í morgun. Skjálftinn var 7,3 að stærð. Gísli Rafn Ólafsson er í Katmandu og fann vel fyrir skjálftanum sem hristi allt í um 45 sekúndur.

 „Fólki var að sjálfsögðu mjög brugðið hér í höfuðborginni. Orðið langt síðan að það hafði komið svona sterkur eftirskjálfti. Það var sterkur skjálfti um sólahrig eftir að stóri skjálftinn reið yfir fyrir tveimur vikum síðan. Þessi var mun sterkari. Við höfum heyrt fregnir frá svæðum nær upptökunum að þar hafi hús verið að hrynja í þessum eftirskjálftum og að það sé verið að koma með fullt af fólki inn á tjaldsjúkrahús sem Rauði krossinn var búinn að setja upp,“ segir Gísli

Svæði utan höfuðborgarinnar illa statt
Gísli starfar fyrir hann regnhlífasamtökin Net Hope. Hann segir björgunarstarf ganga hægt eftir að fyrsti skjálftinn reið yfir 25. apríl síðastliðinn. Sá skjálfti var 7,8 að stærð. „Björgunarstarfið gengur hægt og rólega, það sem gerir hjálparstarfið mjög erfitt hér er að bæði upprunarlegi skjálftinn og skjálftinn í dag er að þeir eru uppi í fjöllum þar sem eru ekki einu sinni vegir til.“

Hann segir að svæðið utan borgarinnar hafi orðið verst úti. „Borgin sjálf fór í rauninni ekkert mjög illa út í skjálftanum uppahaflega. Þegar þú ert í Katmandú, þá telurðu byggingarnar sem hrundu en þegar þú kemur út fyrir svæðið þá telurðuu byggingarnar sem standa.“

Gísli segir að óttast sé að mannfall hafi orðið í skjálftanum í morgun. „Ég held það megi alveg reikna með því.“ Hann segir fólk þó hafa búist við eftirskjálftum og því hafi margir haldið sig utandyra.

Hrefna Rós Matthíasdóttir
Fréttastofa RÚV