Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Allt fullveldið er undir hjá Stuðmönnum

Mynd: ÍSTÓN / RÚV

Allt fullveldið er undir hjá Stuðmönnum

10.10.2018 - 16:40

Höfundar

Hljómsveitina Stuðmenn ætti ekki að þurfa að kynna sérstaklega og margir þekkja hana sem hljómsveit allra landsmanna. Það ætti því ekki að þykja annað en eðlilegt að Stuðmenn fagni fullveldi Íslands á sinn hátt. Það munu þeir gera undir yfirskriftinni Stuðmenn í öllu sínu fullveldi.

Síðdegisútvarp Rásar 2 bankaði upp á í æfingaaðstöðu Stuðmanna í Vesturbæ Reykjavíkur á dögunum og truflaði þau á æfingu. Guðmundur Pálsson dagskrárgerðarmaður furðaði sig reyndar á því að Stuðmenn væru yfirleitt að æfa, þar færi svo reynd hljómsveit að ekki væri þörf á æfingum lengur, en hljómsveitarmeðlimir voru sammála um að það þætti siðferðislega réttara að koma saman og þykjast æfa. Svo ærið væri tilefnið. En hvert er svo tilefnið, hvað er á seyði?

„Það eru stórtónleikar í Þjóðleikhúsinu 10. nóvember sem við erum að undirbúa okkur fyrir,“ svarar Jakob Frímann Magnússon hljómborðsleikari Stuðmanna. „Það má búast við mjög fjölbreytilegum sneiðmyndum af sögu fullveldisins, fléttað saman við sögu Stuðmanna. Við tökum okkar eigin lög af mestum hluta og notum síðan annarra manna lög þegar og ef við á.“ Egill Ólafsson grípur inn í, „við síterum í annarra manna lög, eins og við höfum gert allar götur. Þetta er auðvitað uppsoðin músík úr öðrum gömlum lögum. Fullveldið er allt undir, 100 ár og hljómsveitin hefur lifað af helming þess tíma. Næstum því, allavega 49 ár.“ Þegar þessari setningu sleppir verður píanóleikarinn Eyþór Gunnarsson snöggur til að spyrja „vill einhver elska 49 ára gamalt band, sem vantar æfingarhúsnæði, og er í krísu,“ með viðeigandi undirspili.

Stuðmenn í öllu sínu fullveldi
 Mynd: Stuðmenn
Stuðmenn í öllu sínu fullveldi.

Öllu verður væntanlega tjaldað til og tónlist Stuðmanna, sem oft kallast á við fullveldissögu þjóðarinnar, verður vitaskuld rauður þráður í gegnum dagskrána. Verður eitthvað um sjónrænar uppákomur eða gestakomur jafnvel? „Þetta verður heilmikið leikhús með búningum og tilheyrandi, búningaskipti verða á 8 takta fresti,“ svarar Egill og Jakob bætir um betur, „þetta verður skemmtileg dagskrá og heildræn og þeir sem hafa séð auglýsingamyndirnar sem fylgja þessum tónleikum, þeir sjá að við höfum fulltrúa kynfrelsis í háni Guðmundi, við erum með rauðsokkufulltrúann Ingibjörgu, andlega seiminn túlkaðan af Valgeiri Guðjónssyni, skátahöfðingjann, fulltrúa sjómannastéttarinnar og fisksalanna og svo auðvitað höfuðið á Eyþóri niðursoðið í krukku. Loks fáum við svo góða gesti úr okkar eigin gömlu röðum sem ætla að heiðra okkur með nærveru sinni og leggja eitthvað til í söng og gleði.“ 

Fullveldistónleikar Stuðmanna fara fram 10. nóvember á stóra sviði Þjóðleikhússins og ljóst er að allt liggur undir. „En svo má ekki gleyma því sem mikilvægast er, að þetta er fyrst og fremst Stuðmenn. Það er auðvitað langmikilvægast og allt þetta hliðardót er bara bónus. Þetta eru bara Stuðmenn fyrst og fremst og það sem eftir lifir af þeim. Og það er heilmikið,“ segir Egill Ólafsson að lokum.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Þetta hefur verið gott félag“

Popptónlist

Öllu tjaldað til í Stuðmannasirkus Góa

Popptónlist

Mest seldi kubburinn – og reyndar sá eini

Tónlist

Sönnunargagnið er astraltertukubbur