Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Allt bendi til vanhæfis forsætisráðherra

24.03.2016 - 18:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að allt bendi til að vanhæfisástæður hafi verið uppi hjá forsætisráðherra vegna fjármála eiginkonu hans. Árni Páll fagnar því að Sigmundur Davíð hafi ákveðið að tjá sig um málið í forsíðuviðtali Fréttablaðinu í dag.

„Ég fagna því nú í fyrsta lagi að hann skuli hafa skipt um skoðun, og ákveðið að svara opinberlega fyrir þessi mál, og ég treysti því þá í framhaldinu að hann muni líka svara Alþingi þegar þing kemur saman, og að hann muni svara öðrum fjölmiðlum, þeim spurningum sem þeir vilja leggja fram um þetta mál,“ segir Árni Páll.

Málið snúist ekki um eiginkonu forsætisráðherra

„Mér finnst í viðtalinu [í Fréttablaðinu] þess gæta um of að hann [forsætisráðherra] sé að reyna að túlka þetta mál þannig að þetta snúist um konuna hans. Það hefur aldrei snúist um eiginkonu forsætisráðherra. Það snýst um forsætisráðherrann sjálfan, viðbrögð hans við aðstæðum og ákvarðanir sem hann hefur tekið og þá staðreynd að það er allt sem bendir til að það hafi alla vega verið vanhæfisástæður uppi í einhverjum tilvikum, þegar ákvarðanir voru teknar.“

​Forsætisráðherra, sem var í hálftíma löngu viðtali á Útvarpi Sögu í dag, hefur enn ekki orðið við margítrekuðum óskum Ríkisútvarpsins um viðtal.