Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Allt að fjórða hvert barn ekki bólusett

08.10.2013 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Bólusetningar tólf mánaða og fjögurra ára barna eru óviðunandi og allt að 20 prósent barna sem ekki hafa verið bólusett á sumum landsvæðum. Sóttvarnarlæknir ætlar að senda lista á heilsugæslur á næstunni með nöfnum þeirra barna sem ekki eru bólusett.

Skýrsla sóttvarnarlæknis um þátttöku í almennum bólusetningum í fyrra er fyrsta heildarskýrslan um bólusetningar sem gefin hefur verið út hér á landi. Þátttaka í bólusetningum er ásættanleg eða um og yfir níutíu af hundraði nema þegar kemur að bólusetningum við tólf mánaða og fjögurra ára aldur.

Hlutfall eins árs barna sem ekki hafa verið bólusett er hæst á Suðurlandi og Suðurnesjum eða 19 af hundraði. Hlutfall fjögurra ára barna sem ekki hafa verið bólusett er hæst í Vestmannaeyjum þar sem 25 af hundraði barna hafa ekki verið bólusett og á Suðurlandi og Suðurnesjum þar sem 23 af hundraði barna hafa ekki verið bólusett samkvæmt skýrslunni.

„Ef þetta reynist rétt, að hún sé þarna undir 90 prósent þá er það ekki alveg viðunandi,“ segir Þórólfur Guðnason yfirlæknir á sóttvarnarsviði Landlæknisembættisins. Hann segir að skýring geti þó verið sú að bólusetningar séu vanskráðar. „Þess vegna munum við senda á næstunni nánari upplýsingar til heilsugæslanna, með nöfnum þeirra barna sem vantar bólusetningu. Þá fáum við betri hugmyndir um hvort það reynist svo að frekar sé um vanskráningu en vanbólusetningu að ræða.“

Öðru hvoru hafa komið upp efasemdir hjá fólki um að bólusetningar og því haldið að þær séu hættulegar og geti til dæmis valdið einhverfu. Hefur það eitthvað að segja? „Það eru vafalaust margar ástæður fyrir því ef satt reynist að þátttakan sé svona lág. Ég hvet alla foreldra til að fara eftir þeim bólusetningarreglum sem hér hafa verið settar upp. Það mun vernda börnin í framtíðinni,“ segir Þórólfur.