Allt að 30 þúsund með sykursýki

20.04.2018 - 17:00
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Áætlað er að um 30 þúsund einstaklingar á Íslandi séu með sykursýki og sjúklingahópurinn með sjúkdóminn sé sá allra stærsti á landinu. Kostnaður vegna lyfja við sjúkdómnum er sá næst mesti miðað við aðrar sjúkdóma og líklega sá mesti ef tekin eru með önnur lyf sem sykursjúklingar verða að taka.

Það er óhætt að segja að tölur um útbreiðslu sykursýki veki ugg. Á heimsvísu er áætlað að 2015 hafi um 435 milljónir verið með sykursýki og hafi fjölgað um rúm 30% á 10 árum. Rafn Benediktsson, yfirlæknir innkirtlalækninga á Landspítalanum og prófessor við Læknadeild HÍ, segir að bæði greinist mjög mikið af nýjum tilfellum og  á vesturlöndum að minnsta kosti gangi betur að meðhöndla fólk þannig að það lifi lengur.

Hér á Íslandi eru sterkar vísbendingar úr gögnum Hjartaverndar um það að við séum líka að sjá svipað hérna og víða erlendis.

Næst dýrasti sjúkdómurinn

Í Evrópu er áætlað að 9-10% allra fullorðinna séu með sykursýki. Hér skortir tölur og upplýsingar en miðað við þetta má áætla að sykursýki hrjái allt að 30 þúsund Íslendinga.

Já, þetta er ógnvekjandi tala. Ef maður horfir á öll nágrannalöndin okkar og Evrópu í heild þá er þetta ekkert fjarri lagi að við séum með 25 til 30 þúsund einstaklinga með sykursýki og að 95% þeirra séu með sykursýki tvö.

Rafn hefur reiknað út að sykursýki sé næst dýrasti sjúkdómurinn á Íslands þegar kemur að lyfjakostnaði Sjúkratrygginga Íslands öll árinu 2012 til 16. Í fyrsta sæti eru lyf sem tengjast ADHD. Reyndar er líklegt að lyfjakostnaður vegna sykursjúkra sé sá allra mesti hér á landi vegna þess að sykursjúkir þurfa að taka ýmis önnur lyf sem tengjast ekki beint sjúkdómnum.

Já, ég helda að þetta sé alveg hárrétt. Það er gjarnan þannig að þessi sjúkdómur snýst ekki bara um blóðsykurinn sem slíkan. Það er líka oft röskum á blóðfitu og blóðþrýstingi.

Ofþyngd stærsti áhættuþátturinn

Rafn segir að það megi tala um faraldur þegar kemur að sykursýki þó að útbreiðslan  geti verið mismunandi  eftir heimshlutum. Sum staðar hafi aukningin komið fram að mestu. Skýringin á því að fólk fær sykursýki 2 sé annars vegar erfðir og hins vegar umhverfisþættir.

Það eru fyrst og fremst umhverfisþættirnir sem eru að drífa aukninguna núna. Þar er ofþyngd stærsti breytanlegi áhættuþátturinn.

Starfshópur sem Rafn Benediktsson stýrði  hefur skilað heilbrigðisráðherra skýrslu um viðbrögð við vaxandi nýgengi sykursýki. Í henni kemur fram að tölur um útbreiðslu og annað skortir. Hópurinn leggur til að komið verði upp miðlægum gagnagrunni til að hægt verðir að gera í raun og veru viðbragðsáætlun.

Það er að okkar mati gríðarlega mikilvægt að það séu til réttar rauntölur um hvernig staðan er. Í leiðinni væri hægt að safna gögnum um hvernig við stöndum okkur í að meðhöndla fólk.

 Eitt að því sem hópurinn átti að meta var hvort ástæða væri til að hefja skimun eftir sykursýki. Hópurinn telur að reynsla annara landa sem gripið hafa til skimunar bendi til þess að ávinningurinn hafi verið minni en menn bjuggust við.

Við teljum skynsamlegra að miða við almennar forvarnir sem geta dreifst til allra.

Umfang sykursýki eru það mikið t.d. í Bretlandi þar sem sumir telja að kostnaður vegna sjúkdómsins geti hreinlega sett breska heilbrigðiskerfið á hausinn. Það er ljóst að sykursýki er hættulegur sjúkur sem dregur úr lífslíkum manna.  Alþjóða heilbrigðisstofnunin  áætlaði 2006 að sykursýki yrði árið 2030 komið í sjöunda sæti á heimsvísu sem dánarorsök.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi