Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Allt að 250.000 börn í klóm vígasveita

11.02.2019 - 03:04
epa06762256 An activist of the association 'Together for Africa' wears masks while playing a slave during the staging of a slave market in front of Brandenburg Gate in Berlin, Germany, 25 May 2018. The association 'Together for Africa'
Library image from an anti-trafficking protest in Germany in 2018 Mynd: EPA
Tugir og jafnvel hundruð þúsunda barna, drengja og stúlkna, eru þvinguð til hermennsku á hinum fjölmörgu átakasvæðum heimsins. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, Unicef, sem gefin er út í tilefni Dags rauðu handarinnar hinn 12. febrúar, sem tileinkaður er baráttunni gegn notkun barna í hernaði.

Allt að 250.000 börn í ánauð hjá vígasveitum

Engar áreiðanlegar tölur eru til um fjölda þeirra barna, drengja og stúlkna, sem eru þvinguð til að berjast, notuð sem „lifandi skildir" og misnotuð kynferðislega af miskunnarlausum vígamönnum á degi hverjum. Fullvíst er þó talið að þau skipti tugum þúsunda og til eru rannsóknir sem benda til þess að barnahermenn og barnungir þrælar vígasveita séu allt að 250.000 talsins.

Verst er ástandið í Afríku, einkum þar sem langvinn stríð hafa geisað, svo sem í Suður-Súdan, Mið-Afríkulýðveldinu, Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó og Sómalíu. Ástandið er einnig skelfilegt í Sýrlandi og jemen, og litlu skárra í Afganistan, Malí og Mjanmar, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Þrælað út, misnotuð kynferðislega og þvinguð til sjálfsmorðsárása

Ánauðug börnin eru ekki öll neydd til að taka beinan þátt í vopnuðum átökum; sum eru notuð til njósna eða sendiferða, önnur eru látin sjá um matseld, þrif, eldiviðarsöfnun og annað daglegt amstur. Algengt er að stúlkubörn séu þvinguð til að giftast ræningjum sínum og jafnt stúlkur sem piltar eru beitt kynferðisofbeldi, samkvæmt Barnahjálpinni.

Þá gerist það ósjaldan að óbermin sem ræna þeim noti barnung fórnarlömb sín sem lifandi eða mannlegan skjöld eða neyði þau hreinlega til sjálfsmorðsárása. Barnahjálpin hvetur stjórnvöld allra ríkja heims til að beita sér af auknum krafti gegn þessum útbreiddu og alvarlegu brotum á börnum og réttindum þeirra. 

Hér má kynna sér Dag rauðu handarinnar. Síðan er á ensku. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV