Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Allt að 20 þúsund heimili með Netflix

08.09.2013 - 19:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Stór hluti sjónvarpsáhorfenda hér á landi nálgast nú efni með allt öðrum hætti en fyrir fáum árum. Enn er deilt um lögmæti þessara aðferða, en hefðbundnar sjónvarpsstöðvar eru þegar farnar að laga sig að breyttum tímum.

Talið er að hér á landi séu allt að 20 þúsund íslensk heimili tengd efnisveitunni Netflix, sem er netþjónusta, þar sem hægt er að horfa á ókjörin öll af kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Þáttaröðin House of Cards, sem RÚV sýndi í sumar við talsverðar vinsældir var til dæmis framleidd fyrir Netflix. Munurinn þarna er að allir þættirnir eru settir á netið í einu og fólk ræður þannig sjálft hvenær það horfir á efnið. 

Sverrir Björgvinsson, ritstjóri einstein.is, segir vinsældir þjónustunnar sífellt að aukast. Sprenging hafi orðið í þessari þjónustu á þessu ári með framleiðslu Netflix á þáttaröðunum House of Cards og Arrested Development. Fólk hafi þá tekið eftir því hvaða þjónustu Netflix bjóði upp á og hvernig hún virki. 

Sverrir heldur úti vefsíðu þar sem fólk sækir sér leiðbeiningar um hvernig maður tengist. Það þarf nefnilega að fara krókaleiðir, því Netflix er í rauninni ekki í boði hér á landi og það er umdeilt hvort þessi þjónusta er lögleg eða ekki, þótt fólk borgi fyrir hana. 

Sverrir segir að fyrr í sumar hafi notendur Netflix hér á landi verið um 15 þúsund. Hann telur að á annað þúsund hafi bæst við síðan þá. 

Löglegt eða ekki, þá er óumdeilt að Netflix og aðrar efnisveitur eru að ryðja sér til rúms hér á landi sem og annars staðar og þá vaknar spurningin; hvernig ætla hefðbundnar sjónvarpsstöðvar að bregðast við? 

Freyr Einarsson, sjónvarpsstjóri 365 miðla, segir að brugðist sé við með því að auka innlent efni. Þannig verði sérstaða mótuð til framtíðar. „Trompið sem sjónvarpstöðvarnar íslensku munu alltaf hafa í hendi er innlend sjónvarpsframleiðsla,“ segir hann. „Innlent efni sem við getum frumsýnt, beinar útsendingar og útsendingar frá viðburðum. Þetta er eitthvað sem engir aðrir geta boðið upp á. Þetta er eitthvað sem Netflix er ekki að fara að bjóða okkur upp á.“

Og með því að sýna vinsæla erlenda þætti fyrr en áður, og auka frelsi notenda, til dæmis með OZ tækninni sem hleypt var af stokkunum nýlega, þar sem hægt er að safna efni og horfa á við hentugleika. Aðrar leiðir eru líka þekktar, Sarpurinn á vefsíðu RÚV, svokölluð Vod tækni símafyrirtækjanna og það sem kallað er Tímaflakk þar sem hægt er að fresta áhorfi. Sú þjónusta verður bráðlega einnig í boði í gegnum spjaldtölvur og snjallsíma. Þessar breytingar þýða þó ekki að hefðbundin, svokölluð línuleg dagskrá, sé að leggjast af. 

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarps hjá RÚV, segir að áfram verði boðið upp á vikulega sýningu á þáttum. Hinsvegar þurfi að bregðast við þessu með því að bjóða upp á fleiri möguleika, eins og að bjóða samtímis upp á að sýna þætti vikulega og setja þá á netið alla í einu. „Það mun klárlega gerast fyrr en síðar, að við förum að bjóða upp á þá þjónustu eins og aðrar sjónvarpsstöðvar eru að fara að gera,“ segir Skarphéðinn.