Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Allt á floti í Japan

11.09.2015 - 06:46
epa04924753 A woman is escorted in a street flooded after the Kinugawa River breached its banks on 10 September due to heavy rain generated by typhoon Etau in Joso, Ibaraki prefecture, north-east of Tokyo, Japan, 11 September 2015. Search-and-rescue
 Mynd: EPA
Björgunarstörf standa enn yfir í norðausturhluta Japans þar sem rignt hefur án afláts síðustu daga. Minnst tveir hafa látist í flóðunum sem fylgt hafa úrhellinu, um 30 hafa slasast og ekki færri en 25 er saknað. 50 þyrlur og 6.000 björgunarmenn hafa verið á þönum við björgunarstörf í alla nótt.

Í borginni Joso eru mörg hundruð manns í sjálfheldu og bíða björgunar uppi á þökum húsa sinna, sem eru umflotin vatni eftir að áin Kinugawa flæddi yfir bakka sína í gær. Varað er við áframhaldandi úrhelli og mikil hætta talin á aurflóðum. Yfir 100.000 manns hafa þurft að flýja heimili sín í Joso og nágrenni.

Í morgun var ríflega 400.000 íbúum héraðshöfuðborgarinnar Sendai sagt að búa sig undir að þurfa að flýja þegar Nanakitagawa-áin tók að leita úr farvegi sínum. Þá flæddi Shibui-áin einnig yfir bakka sína í morgun og færði bæði akra og íbúðarhverfi í kaf í og umhverfis borgina Osaki, um 350 kílómetra norður af Tókíó.

Úrhellið fylgir í kjölfar hitabeltisstormsins Etau, sem gekk yfir Japan fyrr í vikunni. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV