Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Allsherjarverkfall kvenna á Spáni

08.03.2018 - 12:57
epaselect epa06588531 Women argue with Catalonian regional Police officers or Mossos d´Esquadra as they try to close the access the Gran Via street in Barcelona, Spain, 08 March 2018. 'If we stop, the world stops' is the slogan for the first
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Konur á Spáni hafa boðað til allsherjarverkfalls í 24 klukkustundir í dag í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Veruleg röskun verður á lestarsamgöngum. 

Tíu verkalýðsfélög á Spáni standa að sólarhringsverkfalli kvenna. Þá hafa kvenréttindasamtök hvatt konur til þess að eyða engum peningum í dag og að sleppa því að vinna heimilisstörf. Þrjúhundruð lestarferðir falla niður vegna kvennaverkfallsins og neðanjarðarlestakerfi Madrid-borgar verður einnig stopult.

Lýðflokkurinn sem fer með stjórn landsins er ekki par hrifinn. Talsmaður flokksins segir verkfallið vera uppátæki forréttindafemínista og ekki sniðið að þörfum þeirra kvenna sem stríði við venjuleg hversdagsleg vandamál.

Flokkurinn virðist þó ekki ganga í takti við skoðanir meirihluta landsmanna. Samkvæmt skoðanakönnun spænska blaðsins El País, styðja 82 prósent landsmanna kvennaverkfallið og 76 prósent aðspurðra telja lífsbaráttu kvenna erfiðari en lífsbaráttu karla.

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Evrópusambandsins hafa spænskar konur í opinbera geiranum 13 prósentum lægri laun en karlar og konur í einkageiranum eru með 19 prósentum lægri laun en karlar.

Spænskar konur lifa ennfremur við mikið ofbeldi. Samkvæmt tölum frá innanríkisráðuneytinu er konu nauðgað að meðaltali á átta klukkustunda fresti og 49 konur voru myrtar af sambýlismanni sínum í fyrra.

Boðað hefur verið til 120 mótmæla víðsvegar um landið í dag undir slagorðinu „Ef við stoppum, þá stöðvast heimurinn.“

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV