Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Allsber Trump og aktívistarnir

Mynd: indecline / indecline

Allsber Trump og aktívistarnir

19.09.2017 - 16:10

Höfundar

Samtímis, í fimm borgum Bandaríkjanna, risu jafnmargar eftirlíkingar forsetans. En engin þeirra var í neinum fötum. Hópurinn Indecline setur upp pólitísk listaverk í skjóli nafnleyndar.

Indecline er hópur listamanna og aktívista sem var stofnaður á vesturströnd Bandaríkjanna árið 2001. Upphaflega voru þetta nokkrir einstaklinga sem stunduðu veggjakrot og kvikmyndagerð, en í dag eru nokkur hundruð manns, víðsvegar um Bandaríkin, í Mexíkó og Evrópu, hópurinn sem kallar sig Indecline.

Hópurinn berst að eigin sögn gegn félagslegu óréttlæti, umhverfis- og dýraverndunarmálum. 

Við náðum tali af einum meðlima hópsins, en í ljósi þess að Indecline stólar á algjört nafnleysi meðlimanna, kynnti hann sig ekki með nafni. En við skulum kalla hann E.

Framkvæmdin tók hálft ár

Hugmyndir Bandaríkjaforseta eru ekki að skapi hópsmeðlima, en þau hófu undirbúning verksins þegar í ljós kom að Trump myndi mögulega taka við embættinu. Það tók sex mánuði að búa til stytturnar fimm. Biðin reyndist hópnum löng, en þau nýttu tímann til að undirbúa afhjúpun þeirra.

En ýmislegt breytist á sex mánuðum og umhverfi pólitískra verka er gríðarlega mikilvægt. Voru þau ekkert hrædd um að grundvöllurinn fyrir verkinu yrði horfinn þegar stytturnar loks myndu rísa?

„Við vorum heppin,“ segir E, „eða öllu heldur óheppin,“ bætir hann við, því Trump hélt áfram að byggja upp veldi sitt á þessum tíma og þau sáu brátt að ólíklegt væri að einhver næði að bola honum frá völdum á þessum tíma. „Við sáum því að við gætum varið góðum tíma í verkið. Og við vorum ánægð með að hafa valið ævintýri H. C. Andersen [Nýju fötin keisarans], því líkindin jukust með tímanum og verkið varð sterkara fyrir vikið.“

Mynd með færslu
 Mynd: Indecline

Nafnleyndin er mikilvæg

E vill ekki koma fram undir nafni, enda segir hann að nafnleyndin sé hópnum afar mikilvæg. Ein ástæðan er sú að verkin sem hópurinn setur upp eru á mörkum þess að vera lögleg og þannig fylgi nafnleysinu ákveðin vernd fyrir hópsmeðlimi.

Mynd með færslu
 Mynd: Indecline

Önnur ástæða, og ekki síður mikilvæg, segir E vera þá að hópurinn vilji að verkin standi fyrir sínu. „Við höfum ekkert að græða á því að opinbera hver við erum,” segir E og bætir við að frægðin heilli þau ekki. „Þegar verkin eru opinberuð, hafa fjölmiðlar ekki tækifæri til þe ss að fjalla um hver við erum, hvaðan við komum og hvar við búum. Umfjöllunin neyðist til að snúast um verkin sjálf.”

Vaxandi þjóðernishyggja veldur áhyggjum

Lista- og Aktívistahópurinn Indecline hefur hvergi nærri lagt upp laupana og hefur nú þegar sett upp annað verk - en Trump stytturnar voru settar upp síðla sumars. Í höfuðborg Virginíufylkis, í síðustu viku, héngu átta trúðar í tré, klæddir í búninga Ku Klux Klan. Ku klux klowns var þetta verk kallað en það var snarlega tekið niður af yfirvöldum þar í borg. Við sjáum til hverju hópurinn tekur upp á næst, í baráttu sinni við spillingu yfirvalda og vaxandi þjóðernishyggju.

Í viðtalinu, sem flutt var í Víðsjá fimmtudaginn 14. september, fer E yfir sögu styttanna, hversu lengi þær fengu að standa í hverri borg fyrir sig og hver afdrif þeirra voru.