Alls óvíst hvort þurfi að rýma í Grindavík

Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson / RÚV
Alls óvíst er hvort nokkuð þurfi að rýma í Grindavík verði hraungos í grenndinni, segir bæjarstjórinn. Hann segir Lágafell og Þorbjörn skýla Grindavík vel fyrir hraunrennsli úr norðri. Lokadrög viðbragðsáætlunar voru rædd í dag. Grindvíkingar sem Fréttastofa hitti í dag voru áhyggjulausir. 
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Frá fundinum í dag.

Svonefndir viðbragðsaðilar hafa fundað reglulega undanfarið í Grindavík og víðar. Í dag voru þeir samankomnir í húsi björgunarsveitarinnar Þorbjörns í bænum ásamt öllum stjórnendum og millistjórnendum í bæjarfélaginu. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Fannar Jónasson.

Skoða margar sviðsmyndir

„Við stefnum að því að lokadrög að áætlun verði tilbúin fljótlega eftir helgina,“ segir Fannar Jónasson bæjarstjóri.

Í framhaldinu verða Grindvíkingum kynntar áætlanir. 

„Það er alveg óvíst að það þurfi yfirleitt að flytja einhverja úr bænum jafnvel þó að lítið gos yrði hérna fyrir norðan okkur. Og Þorbjörn og Lágafell liggja saman og það mun verja bæinn fyrir hugsanlegu hraunflóði úr norðri. Og þó að það kæmi hraun einhvers staðar úr bænum sem gæti tekið einhverja daga að þá þyrfti ekki að rýma nema kannski hluta bæjarins. Þannig að það eru svo margar leiðir hugsanlegar í þessu og við erum að reyna að stilla upp öllum sviðsmyndum sem að við getum notað til að bregðast við þegar og ef að þessu kemur.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV

Eldgos ólíklegt

Lífið gengur sinn vanagang í bænum til dæmis í söluskálanum Aðal-braut og í línubátnum Dúdda Gísla GK. Þórhallur Benónýsson sjómaður segist hafa fundið skjálftana fyrr í vikunni en segist hafa litlar áhyggjur. 

Birgir Hermannsson sjómaður segir suma í bænum uggandi yfir þessum jarðskjálftum en fólki finnist þó frekar ólíklegt að það fari að gjósa. 

„Það var hérna áður fyrr alveg mikið um jarðskjálfta, segir svona eldra fólkið hérna. Þeir vilja meina að það hafa byrjað að minnka eftir að byrjað var að bora í Svartsengi,“ segir Birgir. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
María Benónýsdóttir

Gamla fólkið hrætt

María Benónýsdóttir, sem vinnur í söluskálanum í Aðal-braut, segist vera rólegri en eina nóttina í vikunni þegar hún vaknaði upp við jarðskjálfta.  

„Ég er ekki kvíðin. Ég hef það bara þokkalegt,“ segir hún.  

Hvernig finnst þér fólkið vera, nú hittirðu náttúrulega marga hérna í sjoppunni?

„Það er mishrætt, sumir eru mjög hræddir og aðrir bara rólegir.“

Gamla fólkið er hins vegar mjög hrætt, segir María, enda tæknin meiri en í gamla daga þegar jafnmikilir jarðskjálftar hafi verið en ekki verið látið vita af þeim eins og nú. 

„Ef að þetta kemur þá bara kemur það og þá bara verður okkur sagt til. Það er bara held ég þannig.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi