RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Allra veðra von

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Veðrið er Íslendingum ævinlega hugleikið enda eru ótal orð um veður í málinu. Lítum aðeins á nokkur orð sem hægt er að hafa til að lýsa vondum vetrarveðrum og margvíslegri snjókomu.

 Út í veður og vind

Um vont veður eigum við orð eins og óveður, illviðri, hrakviðri, hroði, slagveður, slarkveður og vonskuveður. Enn verra er þó veðrið þegar það er fárviðri, aftakaveður, bálviðri, foráttuveður eða mannskaðaveður. Orðið veðrahamur felur í sér dimmu og drunga og beljandi vind með úrhelli eða byl. Þegar veður er vont um lengri tíma er það stundum kallað illviðrakast, illviðrabálkur eða jafnvel óveðurshrina. Þá er ótíð.

Þegar vetur gengur í garð má búast við að geri áfelli, áhlaupagarð eða áhlaupaveður. Ef til vill verður ábúðarmikið veður. Lýsingarorðin ábúðarmikill, ábúðarfullur og ábúðarlegur eru ekki aðeins notuð til að lýsa fólki, heldur líka veðurútliti. Þá er hann dimmur eða óveðurslegur, veðrið er þungbúið og úrkoman vofir yfir. Á þessum árstíma getur veðurútlit verið ábúðarmikið.

Ofan gefur snjó á snjó

Um snjókomu eru til allmörg orð. Snjókoma og ofankoma eru nokkuð almenn. Orðin ofankoma og úrkoma má reyndar nota um allar gerðir úrkomu, ekki bara snjókomu. Snjókoma byrjar oft á fjúki eða jafnvel hreytingi eða slitringi, þá er lítil snjódrífa með hægum vindi.  Hundslappadrífa finnst mörgum skemmtilegt orð, notað um það þegar mikill snjór fellur í stórum flygsum í logni. Það kallast líka skæðadrífa, einkum ef hún er mjög mikil, en logndrífa er heldur hæglátari enda er hún líka kölluð mulla. Orðið hundslappadrífa er myndað úr samsetta orðinu hunds-lappir og orðinu drífa sem merkir einfaldlega snjókoma.

Mugga er mikil snjókoma í logni og jafnvel heldur drungalegu veðri. Hún getur verið svo þétt að það er hálfdimmt yfir á meðan. Snjókoman getur verið svo mikil að réttast væri að kalla hana fannburð. Í slíkum snjóburði fennir fljótt í sporin. Kafald er enn eitt orðið um þétta snjókomu og líka hríð sem er stormur með snjógangi. Því þéttari sem hríðin er því sterkari samsetningar er þörf. hún getur verið blindhríð og það getur verið hríðarkóf, eða einfaldlega bara kóf.  Skrefinu lengra er gengið með orðinu bylur sem er stormur með ákafri snjókomu og enn lengra með kafaldsbyl, blindbyl, öskubyl og blindöskubyl.

Það er ekki alltaf samfelld snjókoma og því síður er hún alltaf rómantísk og falleg hundslappadrífa. Stundum gengur á með éljum. Þá er éljagangur þannig að stundum ganga hryðjurnar yfir en hlé verður á milli. Svo kemur kraparigning eða bleytukafald sem við köllum slyddu. Engum er vel við hráblauta og kalda slyddu sem límist við hár, föt og andlit. Enda er hún líka sums staðar kölluð klessingur.

Í þessari upptalningu eru 30 orð yfir snjókomu. Listinn er ekki tæmandi og sum orðin koma fyrir aftur og aftur í nýjum samsetningum. Því má velta fyrir sér hvort rétt sé að kalla þau sérstök orð yfir snjó en þá má hafa í huga að hver samsetning er gerð til þess að lýsa fyrirbærinu eins nákvæmlega og kostur er. Fyrst við eigum svona mörg orð um snjókomu þurfum við ekkert á orðinu snjóstormur að halda. Þetta er fengið úr ensku og er frekar flatt og óspennandi hjá orðum eins og hríð, bylur, eða hríðarbylur, að ekki sé talað um orð eins og kafald eða kóf.

Snjókorn falla

Þegar snjóflygsur svífa til jarðar, setjast þar og safnast upp er snjór úti, eða mjöll. Nýfallinn snjór kallast nýsnævi. Ef snjórinn er laus eða léttur í sér kallast hann lausamjöll sem er ólíkt hljómfegurra orð en púðursnjór. Harðfrosinn snjór kallast harðfenni en líka hjarn, áfreði, gaddur eða jafnvel jökull. Sé aðeins efsta lagið frosið kallast það skari. Snjóþekja er allþykkt snjólag á jörðinni, og sé snjórinn mjög mikill er hægt að tala um fannfergi og jafnvel skafla eða snjódyngjur og við slíkar aðstæður geta verið mikil snjóalög. Sé snjórinn kaldur, vel frosinn og laus í sér þegar hreyfir vind getur hann farið af stað. Þegar hann fýkur yfir yfirborðið skefur, því það er skafrenningur. Margir Norðlendingar segja að það sé farið að renna þegar aðrir segja að það sé farið að skafa. Í þeirra huga er farið að ryðja vegi þegar sagt er að það sé farið að skafa. Þegar hlýnar í veðri, eða hlánar, blotnar í snjónum. Þegar hlákan kemur og snjórinn linast upp og verður vatnskenndur er krap á jörðinni, og slabb sem eyðileggur skó og veldur vegfarendum mikilli mæðu.

Þetta er engan veginn tæmandi upptalning á orðum um veður og snjó en af henni má sjá að það er til orð fyrir hvert tilefni, jákvætt eða neikvætt, allt eftir aðstæðum.

01.12.2015 kl.15:31
annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Birt undir: Bloggið, Íslenskt mál, Orð af orði