Allra þjóða kvikindi  láta sig dreyma

Mynd: Reykjavik ensemble / Reykjavik ensemble

Allra þjóða kvikindi  láta sig dreyma

20.12.2019 - 16:57

Höfundar

María Kristjánsdóttir fjallar um leikverkið Opening Ceremony, sem nýtt sviðslistafyrirtæki, Reykjavik Ensemble, sýnir í Tjarnarbíói

María Kristjánsdóttir skrifar:

Þegar ég á þriðjudaginn var,  kom inn úr brunagaddinum í stappað anddyrið á Tjarnarbíói á stofnhátíð alþjóðlega sviðslistahópsins Reykjavík Ensemble, þá streymdi á móti mér svo mikil gleði og kátína að mér varð strax aftur hlýtt. Oft hafa verið margir þar, en aldrei sem þá. Og aldrei hef ég heyrt þar jafn mörg tungumál hljóma. Allt í einu tilheyrði ég bara jaðarhópi, kannaðist við  örfá andlit, heyrði hvergi íslensku og vissi eitt andartak ekki hvaða tungumál ég ætti að tala  við stúlkuna í miðasölunni. Það ævintýri sem leikstjórinn Pálína Jónsdóttir og pólska skáldið Ewa Marcinek lögðu útí fyrir nokkrum vikum að frumkvæði Pálínu byrjaði sem sagt í anddyrinu fyrir þann sem getur rakið ættir sínar til Jóns Arasonar eins og flestir innfæddra í þessu landi.  Það var eins og allir innflytjendurnir okkar, þúsundir,  væru mættir og segðu:  við eigum heima hérna rétt eins og þú. Skemmtu þér nú með okkur.

Og ég skemmti mér svo sannarlega.  Alveg frá upphafi þegar leikararnir, söngvararnir, dansararnir faldir aftast  í myrkri og reyk á sviðinu liðuðust fram til okkar áhorfenda eins og úr nokkurs konar einskismanns landi og urðu sýnileg í öllum sínum fjölbreytileika.  Klædd í ákaflega fallega svarta og hvíta búninga úr smiðju Pálínu, kynntu þau sig með nafni leikararnir þrettán. Og svo veltur gjörningurinn af stað þegar Jördis Florentine Richter lýsir yfir þeirri hamingju að hún „sé ólétt“ og hún og hinir leikendur kveðast á eins og hjá grikkjum til forna um hver sé faðirinn og tengsl þeirra tveggja. 

 Í gjörningnum er er púslað saman  í eina sýningu, brotum úr fjórum  verkum eftir pólsk, amerísk, og íslensk skáld. Hvert og eitt þeirra draumur, draumur um framtíð hins nýstofnaða leikhóps Reykjavík Ensemble:  að leikhópnum takist  í náinni framtíð að setja hann á svið.  Leikstjórinn skapar af fagmennsku ákaflega fallega og stöðugt áhugaverða heild úr þessum ólíku brotum, með frumlegri lýsingu,  hreyfingarmunstrum, tónlist og söng. Við upplifum hvunndag innflytjenda, þátt þeirra í atvinnulífinu eða hverjir haldið þið að framleiða frá a til ö íslensku pakka kjötsúpuna? Við upplifum  harmræna fortíð sumra, húmor þeirra , baráttu þeirra við að  tjá sig á íslensku, halda í vonina í erfiðu umhverfi, sköpunargleðina, hamingjuna.   Og þarna í nándinni sem einungis leikhús getur skapað verða allir í rýminu, allra þjóða kvikindin , leikendur og áhorfendur,  ósköp einfaldlega ein sál. 

Þetta er afrek því ekki eru allir á sviðinu jafn framúrskarandi leikarar og Jordis Florentine eða eiga auðvelt með enskan framburð en enska er ríkjandi tungumálið á sviðinu.  Þó pólsku, spænsku, íslensku og þýsku bregði þar einnig fyrir. Mig langar til að læra pólsku hugsaði ég á heimleiðinni.

En ég hugleiddi  einnig  hvort ekki væri rétt að bjóða þingmönnum vorum og ríkisstjórn á sýninguna í þeirri von að þeir sæu ljósið og stórefldu framlög sín til sjálfstæðra leikhópa og einkum leikhópsins Reykjavik Ensemble. En ég held það sé borin von þeir hafa nóg að gera við að hlúa að auðstéttinni. Þjóðleikhúsið gæti kannski  opnað eitt sviða sinna fyrir leikhópnum, hugsaði ég líka. En komst svo að lokum að þeirri niðurstöðu að almenningur í landinu væri einn þess megnugur  að gera drauma Reykjavík Ensemble að veruleika. Okkur yrði ekki skotaskuld úr því. Höldum við ekki björgunarsveitunum uppi  með fjárframlögum? Og hér er líka um líf og dauða að tefla. Líf vonarinnar, draumsins um að eitt sinn verði allir menn á jörðinni vinir.