Allir þjóðfélagshópar hakkaðir í spað

Mynd: Grímur Bjarnason / Borgarleikhúsið

Allir þjóðfélagshópar hakkaðir í spað

26.04.2019 - 16:19

Höfundar

„Ef maður ætlar að geta horfst í augu við sjálfan sig verður maður að gera hlegið að sér. Það er enginn óhultur í þessu verki, þetta er drepfyndið stykki,“ segir Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri leikritsins Bæng sem er frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins í kvöld.

Í kvöld verður leikritið Bæng frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins en verkið er eftir eitt þekktasta núlifandi leikskáld Þjóðverja, Marius von Mayenburg. Leikritið skrifaði Mayenburg síðla árs 2016, skömmu eftir að Donald Trump tók við forsetaembætti í Bandaríkjunum en höfundur lýsir verkinu sem ofnæmisviðbrögðum við ástandinu í vestrænu samfélagi. Leikritið fjallar um undrabarnið Rolf Bæng, sem leikinn er af Birni Thors, sem fæðist fullskapaður, heiltenntur, altalandi og er reiðubúinn til að heilla alla upp úr skónum. Fyrsta verk Bæng litla er að myrða tvíburasystur sína í móðurkviði, næst á dagskrá er að bjarga mannkyni.

Leikstjóri verksins, Gréta Kristín Ómarsdóttir, settist niður með Guðrúnu Gunnarsdóttur og Felix Bergssyni í Mannlega þættinum. Hún ræddi við þau um verkið, tíðarandann og hvernig tilfinning það er að vera leikstjóri á frumsýningardegi. „Þetta er agalegt, mjög mikill titringur og spenningur. Það er skrýtið að koma hingað og láta eins og það sé í lagi með mig en það er það alls ekki,“ segir Gréta aðeins nokkrum klukkutímum áður en verkið er frumsýnt. Gréta segir að nú sé ekkert í stöðunni nema að sleppa tökunum og leyfa frábærum leikhópnum að taka að mestu við keflinu og halda sýningunni gangandi. Hún segist þó alltaf fylgja verkum sínum eftir og mætir á margar sýningar til að athuga hvort eitthvað þurfi að fínstilla. 

Mynd með færslu
 Mynd: Owen Fiene - Borgarleikhúsið
Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri verksins

Verkið er ádeila á ástandið í nútímasamfélagi á Vesturlöndum en höfundur notar fjölskylduna og uppeldi barns sem nokkurs konar módel fyrir samfélagið. Gréta segir að verkið sé mikil gestaþraut og það hafi verið áskorun að sviðsetja það. „Það er mikið uppbrot í verkinu og húmor í tungumálinu en hann notar uppskrúfað, formlegt, skemmtilegt og mjög kómískt mál sem er hans stíll. Kjarninn í rannsókn okkar á þessu verki er að líta til foreldranna og samfélagsins. Það er auðvelt að segja að Rolf sé skrímsli eða að til dæmis Donald Trump sé skrímsli og að einræðisherrar séu bara siðblindir og þar fram eftir götunum en mér finnst það einföldun.“

Grétu varð í ferlinu hugsað til þess hvernig það hefur orðið ákveðinn viðsnúningur í samfélaginu þar sem leiðtogar haga sér upp til hópa eins og smábörn og smábörn eins og leiðtogar. Verkið á því vel við. Hún vísar meðal annars í lofslagsverkfall barna og samstöðu krakka í Hagaskóla sem mótmæltu nýlega brottvísun skólasystur sinnar. „Það var mikilvægt fyrir mig og fyrir hópinn að skilja Rolf frekar en að ákveða að hann sé bara illmenni. Við reyndum að skilja hvernig svona gerist og hvað það er sem innrætir hann á þennan hátt. Fyrir mér er það yfirkeyrð einstaklingshyggja sem hefur afvegaleitt okkur og sett ábyrgð og skömm á herðar einstaklingnum.“

Gréta bendir á ábyrgð einstaklingsins gagnvart loftslagsbreytingum. „Við höldum að við ein berum ábyrgð á hlýnun jarðar, að við þurfum að hætta að nota plaströr og ekki kaupa þetta og hitt . Maður er lamaður af samviskubiti svo við förum að keppast við að halda uppi ímyndinni að við séum góðar manneskjur. Þessi ímynd stendur kannski helst í vegi fyrir að við verðum betri manneskjur. Svo eru það samfélagsmiðlar þar sem fólk keppist við að kasta fram glansmynd af sér og þetta keyrir þetta upp, þennan tíðaranda þegar ímyndin tekur yfir. Mér finnst þetta búa til þá skekkju að við erum hætt að hugsa sem kjósendur eða þátttakendur í samfélagi og hugsum sem neytendur.“

Gréta segir að þó að í verkinu sé beitt ádeila sé það ekki predikun. „Ég lagði samt upp með það að við værum óvægin gagnvart okkur sjálfum og húmorinn væri algjör lykill. Þetta er drepfyndið stykki en ef maður ætlar að geta horfst í augu við sjálfan sig verður maður að gera hlegið að sér. Það er enginn óhultur, þetta er svolítið eins og tveggja klukkutíma South Park-þáttur þar sem femínistar, rasistar og umhverfissinnar eru öll hökkuð í spað. Við erum að horfast í augu við hugmyndirnar sem við höfum um okkur sjálf sem upplýst og menntað fólk á Vesturlöndum.“

Hlusta má á ítarlegt viðtal við Grétu Kristínu um verkið í spilaranum hér að ofan, en leikritið er frumsýnt í kvöld klukkan 20.00.

Tengdar fréttir

Leiklist

Hryllingsstund í Borgarleikhúsinu

Leiklist

Friends-kynslóðin og gamansöm Íslandssaga

Sjónvarp

Myrti pólitísk rétthugsun grínið?

Leiklist

Litlu sýningarnar eiga sviðið á Grímunni