Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Allir sammála um sterka stöðu ríkissjóðs

Mynd með færslu
 Mynd:
Fulltrúar sex flokka sem bjóða fram til þingkosninga ræddu efnahagsmáli í umræðuþætti í sjónvarpssal sem lauk nú rétt fyrir fréttir. Allir voru þeir sammála um góðan árangur í ríkisfjármálum síðustu missera og sterka stöðu ríkissjóðs en ósammála voru þeir um hvaða áherslur ætti að leggja í þeirri stöðu sem nú er uppi. 

Fulltrúi Framsóknarflokksins, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, sagði rekstur ríkissjóðs hafa verið til fyrirmyndar á síðustu árum. Skuldir hafi snarlækkað, kröftugur hagvöxtur og það skapi færi til að byggja upp og styrkja innviði.

Þorsteinn Víglundsson, fulltrui Viðreisnar, sagði flesta hagvísa vísa upp á við og að bjart sé framundan. Varast beri að þenslan fari úr böndunum og eytt verði um efni fram. Forgangsröðun sé lykilorð og þar eigi efling heilbrigðiskerfisins að vera efst á lista.

Fyrir hönd Flokks fólksins var  Halldór Gunnarsson. Hann óttast að uppi svipuð staða og í aðdraganda hrunsins. Vanda skuli hvert skref svo ekki fari allt á sama veg og síðast. Vextir þurfi að lækka þar sem þeir séu að drepa efnahagslífið í landinu. 

Húmanistaflokkurinn vill færa peningaútgáfu bankanna til seðlabankans og að peningastefnunefnd ákvarði hversu mikið magn sé í umferð. Þannig megi forðast fjármálakreppur, sagði Júlíus Valdimarsson.

Smári McCarthy frá Pírötum segir að að taka þurfi á málum eins og skattaundanskotum og kennitöluflakki. Nauðsynlegt sé að byggja upp innviði og girða fyrir spillingu.

Þá sagði Sigurður Eiríksson, fulltrúi Dögunar, að góðærið sem nú ríki endurspegli ekki raunveruleika almennings. Dreyfa þurfi betur ágóðanum, stofna  eigi samfélagsbanka og afnema verðtryggingar.

Gunnar Sigurðarson
Fréttastofa RÚV