Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Allir í framboði í Strandabyggð

Hólmavík Strandir Vestfirðir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is
Engir framboðslistar vegna sveitarstjórnakosninganna 26. maí bárust til kjörstjórnar í Strandabyggð, en framboðsfrestur rann út á laugardag. Því verða kosningarnar í Strandabyggð óhlutbundnar að þessu sinni og sveitarstjórnin kosin í persónukjöri. Þetta kemur fram á heimasíðu Strandabyggðar. Þetta þýðir að nánast allir kjörgengir íbúar sveitarfélagsins eru í raun í kjöri

Þetta á þó ekki við um fólk sem af einhverjum ástæðum er undanþegið skyldu til að samþykkja kosningu sína, ef af verður, né heldur þau sem fyrirfram hafa skorast undan kjöri.

Á heimasíðu Strandabyggðar segir að kjörstjórn muni auglýsa nöfn þess sveitarstjórnarfólks sem beðist hefur undan endurkjöri innan skamms. Öllum öðrum sem kjörgengir eru, segir á heimasíðunni, og eru „heilir og hraustir og yngri en 65 ára, er skylt að taka kjöri í sveitarstjórn við óbundna kosningu.“
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV