Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Allir gráta fá stuðning Rótarý-hreyfingar

28.06.2017 - 06:21
Mynd með færslu
 Mynd: facebooksíða Allir gráta
Rótarýklúbburinn eRótarý Ísland veitti nýverið félagasamtökunum Allir gráta viðurkenningu fyrir framlag samtakanna til bættrar geðheilsu ungmenna. Næstu tólf mánuði mun rótarý-umdæmið á Íslandi beina sjónum sínum að málefnum ungu kynslóðarinnar.

Samtökin Allir gráta voru stofnuð fyrir um hálfu ári og hafa það að markmiði að aðstoða ungt fólk við að opna sig og ræða opinskátt um tilfinningar sínar.

Snapchat-stjarnan Aron M. Ólafsson er ein helsta driffjöðurinn á bak við Allir gráta, en hann opnaði sig um eigið þunglyndi í beinni útsendingu á Facebook þar sem þúsundir fylgdust með. Í kjölfarið ákvað hann að láta verkin tala og nýta vinsældir sínar á Snapchat til að ná til ungmenna og fræða þau um geðheilsu.

Anton Máni Svansson, forseti eRótarý klúbbsins, er framleiðandi kvikmyndarinnar Hjartasteinn. Hann segir að eftir gerð myndarinnar hafi hann hugsað mikið um tilfinningalíf ungmenna og telur nauðsynlegt sé að ræða um geðheilbrigði og mikilvægi þess að tjá tilfinningar sínar í skólum landsins.

„Ég sé í raun bara gífurlega möguleika í þessum samtökum og finnst mikill styrkur að málefni sem þessi fái rödd ungra áhrifavalda ef svo má segja sem geta verið jákvæðar fyrirmyndir fyrir ungu kynslóðina. Þannig að ég ákvað að bjóða Aroni að halda kynningu á samtökunum fyrir eRótarý og í framhaldi af henni voru allir klúbbsmeðlimir orðnir ástríðufullir fyrir átakinu og ákváðu upp frá því að við vildum gera hvað sem við gætum til að styðja samtökin," segir Anton.

Anton segir að styrkurinn geti bæði falist í fjárframlegi og tengslaneti rótarý-klúbbanna, sem eru 31 talsins á landinu og meðlimirnir um 1200. Ákveðið hefur verið að Rótarý á Íslandi beini sjónum sínum á næsta starfsári að sjálfsmynd barna og unglinga. Því telur Anton að stuðningur við verkefnið Allir gráta falli vel að markmiðum Rótarý-klúbbanna.

„Við höfum alla vega hug á því að styðja samtökin meira á komandi árum og markmið okkar að fá fleiri til liðs við okkur í þeirri von að samtökin nái að stækka ört og ná almennilegri fótfestu,“ segir Anton.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV