Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Allir forystumennirnir búnir að kjósa

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Allir forystumenn stjórnmálaflokkanna voru búnir að kjósa á fimmta tímanum í dag. Kjörfundur stendur yfir allt til klukkan 22 í kvöld.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá forystumenn allra flokkanna sem bjóða fram til Alþingis í dag greiða atkvæði í kosningunum.

Forystumenn flestra stjórnmálaflokkanna kusu í morgun. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins kaus á Flúðum klukkan tíu, um sama leyti voru þeir Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar að kjósa í Ráðhúsi Reykjavíkur og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.

Á ellefta tímanum setti Þorvaldur Þorvaldsson formaður Alþýðufylkingarinnar atkvæði sitt í kjörkassann í Ráðhúsinu, Katrín Jakobsdóttir formaður VG skilaði sínu í Hagaskóla, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar, kaus í Lækjarskóla í Hafnarfirði, Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, kaus í Ingunnarsskóla og það gerði líka Pálmey Gísladóttir, formaður Dögunar. Pálmey á þess reyndar ekki kost að kjósa sinn flokk sem bara býður fram í Suðurkjördæmi.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, kaus í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Eftir hádegi kaus Þórhildur Sunna Ævarsdóttir foringi Pírata í Ráðhúsinu og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, kaus utankjörfundar á Akureyri um fjögur leytið í dag. 

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
annakj's picture
Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV