Allir fimm höfnuðu starfslokasamningi SASS

30.12.2015 - 09:55
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson - RÚV
Allir fimm starfsmenn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga höfnuðu starfslokasamningi sem samtökin buðu þeim skömmu fyrir jól. Formaður samtakanna segir að þau hafi þegar sagt upp starfsmönnum, en viðræður standi við aðra aðila um að taka við hluta af ráðningarsamningum hinna.

Gunnar Þorgeirsson formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sagði í samtali við Fréttastofu fyrir jól vegna uppsagnanna, að þeim sem ekki samþykktu starfslokasamning yrði sagt upp. Einn fimmmenninganna, Eirný Valsdóttir, stýrir verkefninu Brothættar byggðir - Skaftárhreppur til framtíðar. Hún ritar grein í Dagskrána á Selfossi undir fyrirsögninni „Stjórn SASS rústar brothættri byggð“. Hún segir að eftir langan aðdraganda hafi hún verið ráðin til verkefnisins í byrjun ársins. Tilkynning um starfslok skömmu fyrir jól hafi komið sér, fulltrúum Skaftárhrepps og Byggðastofnunar í opna skjöldu. Eftir fund þeirra síðarnefndu og framkvæmdastjóra SASS hafi framkvæmdastjórinn tilkynnt sér að málinu yrði lokið í janúar.

Byggðastofnun greiðir 70 prósent launa verkefnisstjórans og samtökunum á þriðja tug milljóna á ári samkvæmt samningi um atvinnuráðgjöf. Þrír af þeim fimm sem um ræðir eru atvinnuráðgjafar. Gunnar Þorgeirsson segir að fyrirkomulag atvinnuráðgjafarinnar séu mál samtakanna, en byggðastofnun hefði verið upplýst um uppsagnirnar. Eirný Valsdóttir segir í grein sinni að upphafið að uppsagnaferlinu megi rekja til 19. nóvember, þegar stjórn SASS fól formanni og framkvæmdastjóra að undirbúa skipulagsbreytingar.  Í lok greinarinnar segir hún að eftir þessar aðgerðir samtakanna ríki alger upplausn í verkefninu Brothættar byggðir - Skaftárhreppur til framtíðar. Þar með hafi fimmtán sveitarfélög sameinast um að kljúfa það veikasta frá.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi