Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Allir bátar reknir með tapi á svæði D

10.07.2016 - 15:29
Mynd með færslu
 Mynd: Vigfús Ásbjörnsson  - Vigfús Ásbjörnsson
Smábátasjómenn á Hornafirði telja sig órétti beitta í strandveiðum. Kvótinn á svæði þeirra var skorinn niður um 200 tonn frá í fyrra þrátt fyrir að heildarkvóti strandveiða hafi verið aukinn um 400 tonn. Allir bátar á svæðinu séu reknir með tapi.

Kvótinn skertur um 200 tonn

Strandveiðibátar á svæði D, frá Hornafirði að Faxaflóa, verða gerðir út með tapi í sumar segir forsvarsmaður félags smábátaeigenda á Hornafirði. Kvótinn á svæðinu var skertur um 200 tonn frá í fyrra og segja sjómenn gæðunum misskipt á milli landsvæða. Strandveiðikvótinn í ár er 9000 tonn og skiptist á milli fjögurra svæða. Kvótinn var aukinn um 400 tonn frá í fyrra, en samt sem áður var hann skertur á svæði D um 200 tonn. 125 bátar eru gerðir út á því svæði og fengu þeir 1300 tonn af kvótanum í ár.

Sjómenn órétti beittir

Vigfús Þórarinn Ásbjörnsson, trillukarl á Hornafirði og félagsmaður í Hrollaugi, félagi smábátaeigenda þar, segir sjómenn á svæði D mjög ósátta og telja sig órétta beitta. Í júli máttu þeir veiða 195 tonn. Sá afli er þegar kominn í land og búið er að stöðva veiðar út mánuðinn. „Þetta þýðir í raun og veru það að allir bátar sem gera út á strandveiðar á svæði D verða gerðir út með tapi í sumar. Það eru 125 bátar sem að áætlað er að veiði 11 tonn hver. Það sér það hver maður að það er ekki hægt að reka bát á þessum forsendum" segir Vigfús. 

Engin rök heyrt fyrir skerðingunni

„Í raun höfum við aldrei heyrt nein rök frá sjávarútvegsráðherra. Kvótinn náðist illa í fyrra vegna brælu, en kvótinn var í lok sumars færður yfir á önnur svæði þannig að hann var veiddur á öðrum svæðum. Rök frá sjávarútvegsráðherra höfum við ekki fengið. Að vera með fiskveiðistjórnun eftir veðrabrigðum þykir okkur mjög skrítið og við getum í rauninni ekkert gert. Við erum að berjast fyrir því að fá þessa leiðréttingu og fá þessi 200 tonn til okkar aftur. Við gerum það á hverjum degi, en annars erum við bara búnir að binda bátana og þeir safna kostnaði við bryggju núna.  Við megum ekki nota þá. Við erum lögbundnir inni í kerfinu og megum ekki leigja kvóta. Það er búið að loka fyrir veiðar í júlí og við höfum tekið lokaþrif á bátana. Við erum atvinnulausir trillukarlar á D-svæði".

Vilja að Landssamband smábátaeigenda beiti sér

„Við höfum verið að reyna að vinna með landssambandinu og þeir hafa reynt að hjálpa okkur eitthvað í þessu, en mér finnst krafturinn ekki hafa verið nógu mikill í þeim. Ef að landssambandið hefði staðað sína plikt þá væri þetta ekki orðið svona misskipt eins og þetta er orðið í dag", segir Vigfús Þórarinn Ásbjörnsson trillukarl á Hornafirði.

 

 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV