Allar stelpur úr að ofan

Mynd: Reykjavíkurdætur / RVKDTR

Allar stelpur úr að ofan

18.08.2016 - 14:55

Höfundar

Reykjavíkurdætur hafa verið áberandi í popplandslagi þjóðarinnar og hafa stuðað marga, konur og kalla, ekki bara fyrir tónlistina heldur einfaldlega fyrir það að vera til. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í Dæturnar sem eiga plötu vikunnar á Rás 2.

Það er nánast yfirþyrmandi að setjast niður og setja niður hugleiðingar um þessa plötu Reykjavíkurdætra, sem kallast RVK DTR. Öflugur titill sem hæfir öflugum boðskapnum. En af hverju er þetta yfirþyrmandi? Jú, því að beittur boðskapur dætranna, saman með „kýlum á það“ viðhorfi til tónlistarinnar – sem hefur sannarlega getið af sér snilld og ... tja ... ekki svo mikla snilld – hefur bæði sett fólk upp að vegg og ært það þannig að það snýst til varnar, oft á illúðlegan hátt. Og það er þetta sem er yfirþyrmandi. Að það er eitthvað svo skýrt að harla lítið hefur breyst í áratugi hvað þátttöku kvenna í karllægum poppheimi varðar. Jú, allt í góðu á meðan þær eru sæmilega stilltar og prúðar, fara svona nokkurn veginn eftir forskriftinni en ef það er farið harkalega út fyrir hana er fjandinn laus. Þetta er nákvæmlega sama staða og Slits – sú merka kvennapönksveit – var í fyrir rúmum þrjátíu árum síðan. Hótanir um ofbeldi, rætnar tungur og sjálfskipaðir fulltrúar þess sem „eðlilegt“ er sem ná ekki upp í nef sér fyrir bræði. Þetta er það sem Dæturnar hafa verið að vinna með og það er meira en lítið hrósvert að þær hafa haldið hnarreistar áfram, sama hvað.
 

Tónsköpun

En áður en ég held áfram á þessum nótum langar mig til að rýna í sjálfa tónlistina, þessi fjórtán lög sem hér er að finna. En þrátt fyrir að ég geri það, er kynjapólitík saumuð inn í hvern og einn tón. Hún er einfaldlega hluti af pakkanum, líkt og réttindabarátta blakkra var í tónsköpun Public Enemy. Platan safnar saman lögum sem hafa fengið að hljóma undanfarin misseri („Drusla“, „Ógeðsleg“, „Hæpið“ o.s.frv.) en einnig eru nýrri smíðar innan um. Og slatti af lögum, sem hægt er að nálgast á Soundcloud eða Youtube t.d. er ekki hérna. Þetta er eitt af einkennum hópsins, það er ekkert endilega verið að fara hefðbundnar markaðsleiðir hljómsveita, þetta er alls konar. Þetta snýst um ímynd, texta, uppákomur, henda hlutum út, vera virkur og bara „gera“. Og vegna þessa gengur sumt upp og annað ekki. Bestar eru Dæturnar í öflugu lögunum ef svo má segja. „Feminism“ og „Ógeðsleg“ búa yfir þungri undiröldu sem svínvirkar. „Fanbois“ er töff á meðan „Hristann“ fellur algerlega flatt.

„Láttu líkamann leiða“ er í reggí/„rocksteady“-takti og brýtur plötuna skemmtilega upp. Og svo má telja. Dæturnar hafa verið gagnrýndar mikið fyrir rappstíl, þær hafi ekkert flæði o.s.frv. Og já, þetta er misgott svo sannarlega. Stundum er hann letilegur og lokkandi, stundum harður, stundum er þetta meira eins og nokkurs konar ljóðalestur yfir takti. Dæturnar gera meira að segja grín að þessu og standa þannig með pálmann í höndunum. Það má líka velta því fyrir sér, hver ákveður hvað er gott og hvað ekki í „hipphopp“-framburði? Og eru þær að eltast við slíkt, spila leikinn á forsendum karlanna? Svarið er nei.

Boðskapur

Reykjavíkurdætur eru dæmi um alhliða listhóp sem starfar með marga miðla til að koma ákveðnum boðskap á framfæri. Orð eins og valdefling kemur í hugann, setningar eins og „að standa með sér“ o.s.frv.. Persónulega finnst mér þetta til mikillar fyrirmyndar og jákvætt mjög, Dæturnar hafa óneitanlega hrist upp í hlutunum, vísað ákveðinn veg og ég vona að fleiri stelpur finni hjá sér kraft og áræði til að láta vaða á næstu misserum. Bara það að heyra setningu eins og „Dick, viltu Bitch!“ fær mann til að glotta í kampinn og nóg af svona viðsnúningum er að finna hér, hlutum er snúið á haus og málum sem hingað til hafa verið talin sjálfsögð eru sett í ljós efans. Meiri feminisma, meira helvíti!