Allar manneskjur eru ólöglegar

Mynd með færslu
 Mynd:

Allar manneskjur eru ólöglegar

02.02.2019 - 14:41

Höfundar

„Við búum á hnetti sem er skipt upp með manngerðum landamærum utan um fullvalda ríki þar sem við erum öll ólögleg einhvers staðar,“ segir Halldór Armand Ásgeirsson í pistli um flóttafólk, fullveldi og misskiptingu.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Á göngu um stræti Berlínarborgar blasa skilaboð af ýmsum toga við á veggjum og skiltum – þetta er borg með skoðanir – og um þessar mundir er ekki óalgengt að ganga fram á krítartöflu fyrir utan kvöldsjoppur þar sem ritað hefur verið í hástöfum: Kein Mench ist Illegal, eða Engin manneskja er ólögleg. Slagorðið á rætur sínar að rekja alla leið til ársins 1997, felur í sér ákall um að tryggja hagsmuni innflytjenda hvar sem er í veröldinni og kallar vitaskuld í dag fram hugrenningartengsl við þær milljónir manna sem hafa neyðst til þess að flýja heimili sín á undanförnum árum og komist á vonarvöl. 

Slagorðið fær mátt sinn frá þeirri staðreynd að strangt til tekið er þetta auðvitað ekki rétt. Manneskjur eru víða ólöglegar og njóta ekki sömu réttinda og aðrir samkvæmt lögum. Íslensk yfirvöld rannsaka tennurnar í hælisleitandi börnum og senda þau reglulega burt frá landinu með næstu flugvél ásamt öðrum sem mega ekki dvelja þar samkvæmt ákvæðum íslenskra laga. Og svona er þetta vitaskuld eiginlega alls staðar. Við búum á hnetti sem er skipt upp með manngerðum landamærum utan um fullvalda ríki þar sem við erum öll ólögleg einhvers staðar. Hending ein ræður því hvar.

Lög eru ímyndun

Þess vegna er Kein Mensch ist Illegal-slagorðið að sjálfsögðu ekki lýsing á ríkjandi ástandi, heldur – að minnsta kosti samkvæmt minni túlkun – náttúruréttarleg yfirlýsing. Hún felur í sér að frá náttúrunnar hendi séu manneskjur bornar frjálsar og að þær geti ekki í neinum skilningi talist ólöglegar. Lög séu mannasetningar, sem sagt ímyndað valdbeitingartæki, sem notað er til þess að hefta frelsi fólks, meðal annars til að ferðast frjálst um jörðina sem það fæðist á. Það sé ekki réttmæt aðgerð. Það sé með öðrum orðum alltaf ólögmæt aðgerð að aldursgreina tanngarð í barni með það fyrir augum að senda það svo á einhvern stað sem það vill ekki vera á og öryggi þess er jafnvel ógnað.

Ég þykist svo sannarlega ekki vera neinn sérfræðingur þegar kemur að landamærum og málefnum innflytjenda, en ég hef kosið að líta á þetta allt saman með augum barns og spyrja: Hvað er það sem réttlætir landamæri annað en ofbeldið sem hvílir í bakgrunni þeirra? Hvers vegna er svona auðvelt fyrir mig að færa peninga til og frá leynilegum bankareikningi í Sviss eða aflandseyju í Karabíska hafinu, en oft svo erfitt fyrir fólk að ferðast milli staða? Hvers vegna gerir enginn athugasemd við það að lóan komi hingað vegabréfslaus á vorin eftir vetursetu í Norður-Afríku? Hvernig má það vera í öllu blaðrinu um framfarir, útbreiðslu lýðræðis og frelsis að ferðafrelsi fólks hafi sífellt farið dvínandi síðustu áratugi? 

Opin landamæri inn í umræðuna

Lögmæti landamæra – og þar með vitaskuld ríkja – virðist þegar á botninn er hvolft vera í besta falli afar takmarkað og tímabundið. Og aftur – þegar kemur að því að tanngreina barn og vísa því svo úr landi og aftur inn í veruleika þar sem þess bíður mun verra hlutskipti en hér, þá þarf ekki að spyrja sjálfan sig mörgum sinnum „Af hverju?“ áður en við rekumst á vegg.

Mynd með færslu
 Mynd:
Ryan Somma.

Engu að síður hefur krafan um opin landamæri ekki verið mjög hávær í opinberri umræðu frá því ég man eftir mér nema kannski meðal vinstri sinnaðra anarkista sem og auðvitað harðasta frjálshyggjufólks. Þetta hefur ekki þótt raunhæf krafa. En það er kannski að breytast, að minnsta kosti ef eitthvað er að marka þessi skilti sem ég sé út um allt, segjandi að engin manneskja sé ólögleg, sem og grein sem birtist í desember-tölublaði tímaritsins American Affairs eftir Angelu Nagle og kallast The Left Case Against Open Borders, eða Vinstri málstaðurinn gegn opnum landamærum.

Greinin er of löng og ýtarleg til þess að ég hafi tíma til þess að súmmera upp efni hennar almennilega hér, en í stuttu máli má segja að höfundur beini þar spjótunum að félögum sínum í vinstrinu og saki þá um að tala nú fyrir því að opna eigi landamæri, einungis vegna þess að sá pólitíski vígahnöttur Donald Trump og aðrir pópúlískir forystumenn nýhægrisins séu fylgjandi því að herða landamæraeftirlit. Alveg síðan Sovétríkin féllu og nýfrjálshyggjuárás var í kjölfarið gerð á hvers kyns landamæri hvað frjálst flæði fjármagns og vinnuafls varðar, hafi það verið hlutverk vinstrisins að andmæla hömlulausri alþjóðavæðingu fjármálakerfisins, alveg fram til fyrirbæra á borð við til dæmis Occupy Wall Street. 

Móralísering án útskýringa

Að sögn Nagles birtast mótmæli gegn alþjóðavæðingunni í dag langsamlega sterkast í velgengi nýrra pópúlískra hægri afla sem grundvalli sína pólitík á hörku í garð innflytjenda og lokuðum landamærum. Svar vinstrisins við þessu sé algjörlega innihaldslaus móralísering um að opna eigi landamærin fyrir umkomulausu fólki, sem samkvæmt Nagle er eins og að taka undir hið gamalkunna stríðsöskur nýfrjálshyggjufólks að markaðurinn sjái um sína og hagsmuni stórfyrirtækja, sem taki því fagnandi að fá að hagnýta sér niðurlægingu annars fólks í eigin þágu, þurrka upp alla þekkingu og menntun í fátækum löndum og borga innflytjendum þaðan lágmarkslaun sem aftur verði til þess að laun allra annarra lækki um leið.

Í þessum viðhorfum felist hins vegar engar útskýringar á því hvernig eigi að tryggja hluti eins og til dæmis heilbrigðis- og menntakerfi og svo framvegis verði landamærin opnuð. Það sé fullkomlega eðlilegt og rétt að hlutverk vinstrisins sé að berjast fyrir réttindum og hagsmunum innflytjenda, en með því að tala skyndilega alfarið gegn landarmærum og höftum á innflutningi þá sé alltof langt gengið, og að slíkur málflutningur þjóni þeim tilgangi einum að standa vörð um kerfið sem yfir höfuð veldur því að fólk neyðist til þess að flýja heimili sín og leita betra lífs á öðrum stað. Í greininni kemur til dæmis fram að fleiri eþíópískir læknar starfi í Chicago-borg heldur en í gjörvallari Eþíópíu, sem er ríki upp á 80 milljónir manna.

Greinin þykir afar umdeild og hún hefur vakið mikla athygli. Nagle hefur verið legið á hálsi fyrir að fara með rangt mál, skilja ekki bofs í hagfræði, skilja ekki þetta og skilja ekki hitt og ýmislegt annað sem ég hef engar forsendur til að leggja mat á. Hins vegar grunar mig að líklega sé eitthvað til í grunnpunktinum hjá henni, þó ekki nema einmitt vegna þess hversu hörð viðbrögð greinin hefur vakið. Það er erfitt að neita því að pólitísk umræða nútímans ristir oft ekki dýpra en svo að fólk sé annað hvort fylgjandi eða andvígt innflytjendum án þess að farið sé ofan í saumana á hvað sú afstaða merkir í raun hverju sinni. Það skyldi þó ekki vera að þetta allt saman snúist enn og aftur um Trump og getu hans til þess að breyta hvítu í svart? 

Af hverju er fólk neytt á flótta?  

Þetta er flókið mál, allavega virðist þetta vera flókið mál í augum manns eins og mín, vegna þess að það er erfitt að sjá hvað best er að gera til að stuðla að vellíðan, öryggi og hamingju sem flestra á þessari jörð. Það er erfitt að sjá hvað er raunhæft eins og er. Ég verð þó að gerast hér svo djarfur að lýsa því yfir að þótt ég sé náttúruréttarmaður inn að beini, eigi erfitt með að koma auga á lögmæti landamæra og finnist það svo sannarlega tvímælalaust göfugt markmið að berjast fyrir því að fólk eigi sem auðveldast með að koma sér fyrir og setjast að á nýjum stað, þá virðist mér líka skynsamlegt að beina sjónum sínum að orsökinni og tala fyrir heimi þar sem fólk neyðist í alvörunni ekki til þess að yfirgefa heimili sín vegna örbirgðar yfir höfuð, þar sem efnahagslegum stöðugleika á einum stað er ekki viðhaldið með því að leggja hann í rúst á öðrum, þar sem sett er í forgang að allir eigi til hnífs og skeiðar og geti lifað sómasamlegu lífi á þeim stað sem þeim er kærastur, hvar sem hann kann að leynast, en það krefðist vitaskuld nokkuð róttækari aðgerða en bara að loka landamærahliðunum.

Tengdar fréttir

Pistlar

Drottning utan tímans

Pistlar

Heimsendir á mínum forsendum

Pistlar

Nauðsynlega þjóðin og hreinleikaórarnir

Pistlar

Á landamærum Peningalands og mannkynssögunnar