Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Allar líkur á að Skotar óski eftir sjálfstæði

24.06.2016 - 20:40
epa05291496 Leader of the Scottish National Party (SNP), Nicola Sturgeon is seen through the display of a video camera as she speaks to members of the audience after being re-elected to serve the Glasgow Southside at the Emirates Arena in Glasgow,
 Mynd: EPA
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, segir allar líkur á því að boðað verði til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands eftir að breskir kjósendur kusu að segja sig úr Evrópusambandinu í gær. Töluverður meirihluti Skota kaus að vera áfram í ESB eða um 62% en það dugði ekki til að vega á móti atkvæðum frá landsbyggðinni í Englandi og Wales þar sem yfirgnæfandi meirihluti vildi segja skilið við sambandið.

Margir Skotar líta svo á að þeir hafi verið sviknir í aðdraganda síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði sem fór fram árið 2014. Ríkisstjórnin fullvissaði þá Skota um að þeirra biði bjartari framtíð innan Bretlands og ólu jafnvel á ótta við að úrsögn úr breska ríkjasambandinu þýddi úrsögn úr ESB - Skotar yrðu því að vera áfram hluti af Bretlandi til að hafa aðgang að sameiginlegum mörkuðum Evrópu.

Englendingar hafa nú í raun dregið Skota nauðuga úr Evrópusambandinu, þvert á þann boðskap að löndin stæðu betur saman og innan ESB. Á blaðamannafundi í Edinborg í kvöld sagði Sturgeon að í ljósi þeirra aðstæðna væri fullkomlega augljóst að ný þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands yrði tekin á dagskrá. Forsendubrestur hafi átt sér stað frá árinu 2014 þegar Skotar höfnuðu sjálfstæði með 55% atkvæða gegn 45%. Fréttaskýrendur telja margir líklegt að úrsögn Breta úr ESB auki enn stuðning við sjálfstæði í Skotlandi.

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV